Úrskurðinum verði framfylgt tafarlaust

Meginniðurstaðan sú að Ísraelsmönnum ber skylda til að koma í …
Meginniðurstaðan sú að Ísraelsmönnum ber skylda til að koma í veg fyrir stríðsaðgerðir sem kalla megi þjóðarmorð. Ljósmynd/Stjórnaráðið/Frank van Beek

Íslensk stjórnvöld virða ákvörðun Alþjóðadómstólsins og kalla eftir því að farið verði eftir henni. Evrópusambandið fer jafnframt fram á að ákvörðuninni verði fylgt eftir tafarlaust og með skilvirkum hætti.  

Meginniðurstaða Alþjóðadómstólsins í máli Suður-Afríku gegn Ísrael fyrir brot gegn lögum um þjóðarmorð er að Ísra­els­mönn­um beri skylda til að koma í veg fyr­ir stríðsaðgerðir sem kalla megi þjóðarmorð auk þess að liðka fyr­ir „bráðnauðsyn­legu“ mannúðar­starfi á Gasa­svæðinu. Var úrskurðurinn birtur í dag. 

Ítrekað kallað eftir vopnahléi

Viðbrögð Bjarna Benediktssonar utanríkisráðherra við úrskurðinum hafa verið birt á vef Stjórnarráðsins. Þar segir að íslensk stjórnvöld hafi ítrekað kallað eftir vopnahléi af mannúðarástæðum í yfirstandandi átökum til þess að lina þjáningar íbúa Gasa.

Ákvörðun Alþjóðadómstólsins í dag um bráðabirgðaráðstafanir séu til marks um þá neyð sem ríkir á Gasa og skyldur stríðandi fylkinga til að vernda borgara. Því næst segir að íslensk stjórnvöld virði ákvörðun dómstólsins og kalli eftir því að farið verði eftir henni.

„Mest aðkallandi er að koma á varanlegri lausn á átökunum fyrir botni Miðjarðarhafs. Vernda þarf almennra borgara á Gasa, veita þeim næga mannúðaraðstoð og endurheimta alla gísla,“ segir í tilkynningunni. 

Fara fram á að úrskurðinum verði framfylgt

Evrópusambandið hefur jafnframt sent frá sér yfirlýsingu í kjölfar úrskurðarins. Þar segir að sambandið fari fram á að úrskurðinum verði framfylgt þegar í stað 

„Fyrirskipanir Alþjóðadómsdólsins eru bindandi og það verður að fara eftir þeim. Evrópusambandið væntir þess að úrskurðinum verði að fullu framfylgt, tafarlaust og með skilvirkum hætti,“ segir í yfirlýsingu frá Evrópusambandinu, en fréttaveita AFP greinir frá. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka