Hvaða lönd hafa fryst greiðslur til UNRWA?

Menn á vergangi á Gasa ýta vagni með korni sem …
Menn á vergangi á Gasa ýta vagni með korni sem þeir fengu frá UNRWA, en nokkrir starfsmenn stofnunarinnar liggja undir þungum ásökunum Ísraelsmanna. AFP

Ísland og Finnland eru einu Norðurlöndin sem hafa ákveðið að frysta fjárframlög til Palestínuflóttamannaaðstoðar Sameinuðu þjóðanna (UNRWA) í kjölfar þungra ásakana í garð starfsmanna stofnunarinnar.

Margir af helstu bakhjörlum UNRWA hafa ákveðið að frysta fjárveitingar í kjölfar þess að Ísraelsmenn sökuðu starfsmenn stofnunarinnar um að taka þátt í árás Hamas-samtakanna þann 7. október.

Stofnunin hefur rekið nokkra starfsmenn vegna ásakananna og lofað ítarlegri rannsókn á fullyrðingum Ísraelsmanna. Ísraelsk stjórnvöld hafa sagst ætla að sjá til þess að stofnunin starfi ekki lengur á Gasa eftir stríðið.

Antonio Guterres, framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna, lagði áherslu á að gera „brýna og ítarlega óháða úttekt á UNRWA“, að sögn talsmanns Guterres.

Bandaríkin frestuðu fjárframlögum til stofnunarinnar á föstudag og síðan hafa önnur ríki fylgt þeirra fordæmi, Ísland meðal annars, eins og mbl.is hefur greint frá.

„Ekki ein einasta evra“ má fara frá Finnlandi til Hamas

Bjarni Benediktsson utanríkisráðherra staðfesti við mbl.is í gær að greiðslur til UNRWA yrðu frystar.

Ísland hef­ur sent nær tvo millj­arða króna til sjálf­stjórn­ar­svæða Palestínu frá því Alþingi viður­kenndi sjálf­stæði Palestínu 2011, þá helst til UNWRA.

Finnland hafði gert fjögurra ára samning um að veita fimm milljónir evra (734 milljónir íslenskra króna) árlega til UNRWA.

Utanríkisráðuneyti Finnlands hefur frestað greiðslum og kallaði eftir „sjálfstæðri og ítarlegri rannsókn“.

„Við verðum að tryggja að ekki ein einasta evra af peningum Finnlands fari til Hamas eða annarra hryðjuverkamanna,“ sagði í yfirlýsingu ráðuneytisins.

Danir og Svíar ekki tekið ákvörðun

Johan Forssell, ráðherra í utanríkisráðuneyti Svía, sagði við Dagens Nyheter í gær að ákvörðun hefði enn ekki verið tekin um hvort fjárframlög yrðu stöðvuð til UNRWA. Forssell tók þá fram að það væru „engar áformaðar greiðslur á næstu dögum“.

Að sögn Danska ríkisútvarpsins, sagði Dan Jørgensen, þró­un­ar­sam­vinnu- og loftslagsráðherra Danmerkur, við fréttaveituna Ritzau að hann hefði beðið UNRWA um „ítarlega skriflega greinargerð“ í tengslum við ásakanir Ísraelsmanna og í kjölfar greinargerðarinnar yrði ákvörðun tekin um „hvort þörf sé á því að taka frekari skref“.

Stjórn­völd í Nor­egi hyggj­ast ekki frysta fjár­fram­lög í kjöl­far ásak­ananna. Norska sendi­ráðið í Palestínu sagði að greina þyrfti „á milli þess sem ein­stak­ling­ar kunna að hafa gert og hvað UN­RWA stend­ur fyr­ir“.

Bretland, Ástralía og Kanada

Penny Wong utanríkisráðherra Ástralíu sagði á samfélagsmiðlinum X, áður Twitter, að þrátt fyrir „mikilvæga og lífsbjargandi vinnu“ UNRWA, myndi ríkisstjórn Ástrala „tímabundið stöðva útgreiðslur á nýlegum fjárframlögum“. Hún sagðist samt fagna „tafarlausum viðbrögðum UNRWA“.

Bresk stjórnvöld segja í yfirlýsingu sér „ofboðið“ vegna ásakana Ísraelsmanna og myndu „tímabundið stöðva alla framtíðarfjármögnun“ á meðan utanríkisráðuneytið endurskoðaði fullyrðingar Ísraelsmanna.

Ahmed Hussen, ráðherra í ríkistjórn Kanada, sagði að kanadísk stjórnvöld hefðu „tímabundið stöðvað viðbótarfjármögnun UNRWA á meðan það vinnur að ítarlegri rannsókn á þessum ásökunum“.

Frakkland, Þýskaland og Ítalía slást í hópinn

Stjórnvöld í París segjast ekki ætla að veita UNRWA nýtt fjármagn eftir ásakanirnar.

„Frakkland hefur ekki áætlað nýja greiðslu fyrir fyrsta ársfjórðung 2024 og mun ákveða hvenær aðgerða er þörf ásamt Sameinuðu þjóðunum og helstu bakhjörlum,“ sagði utanríkisráðuneyti Frakka, sem kallar ásakanirnar „einstaklega alvarlegar“.

Þjóðverjar tilkynntu einnig að þeir myndi hætta fjármögnun tímabundið. Á meðan ásökunin hefði ekki verið afgreidd myndi Þýskaland í samráði við önnur gjafalönd fresta því í bili að samþykkja frekari fjárveitingar, segir í yfirlýsingu utanríkisráðuneytisins.

Antonio Tajani, utanríkisráðherra Ítalíu, sagði að stjórnvöld í Róm ætluðu að stöðva fjárframlög til stofnunarinnar. Aftur á móti sagði hann að „við erum skuldbundin því að veita íbúum Palestínu mannúðaraðstoð og vernda um leið öryggi Ísraels“.

Holland frystir en Sviss þarf frekari útskýringar

Geoffrey van Leeuwen, viðskipta- og þróunarmálaráðherra Hollands, tilkynnti að fjármagn til UNRWA yrði fryst á meðan rannsókn stæði yfir og sagði ríkisstjórnina hafa orðið fyrir miklu áfalli.

„Ásökunin er sú að árásin hafi verið gerð 7. október með peningum frá Sameinuðu þjóðunum – með okkar peningum,“ sagði hann við útvarpsstöðina NOS.

Sviss veitir árlega um 20 milljónir svissneskra franka (rúmlega 3 og hálfum milljarði króna) til UNRWA. Í yfirlýsingu utanríkisráðuneytisins segir að ekki yrði tekin ákvörðun um greiðslur yfir árið 2024 fyrr en ásakanirnar væru útskýrðar frekar.

„Sviss hefur ekkert umburðarlyndi gagnvart hvers konar stuðningi við hryðjuverk, og hvatningu til haturs eða hvatningu til ofbeldis,“ segir enn fremur í yfirlýsingunni.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert