Íslamskir hermdarverkamenn myrtu 22 manns í árás á þorp í vesturhluta Níger, nálægt landamærunum að Malí á sunnudag, að sögn heimildarmanna á staðnum í samtali við AFP-fréttaveituna.
Árásin á sunnudag, beindist að þorpinu Motogatta í hinu víðfeðma Tillaberi-héraði við landamæri Níger að Malí og Búrkína Fasó, en þar hafa íslamskir hryðjuverkahópar starfað í mörg ár.
Kjörinn fulltrúi frá svæðinu sagði við AFP að hermdarverkamennirnir hafi mætt á mótorhjólum í þorpið klukkan 16 á sunnudag.
„Þeir byrjuðu að skjóta og drápu fólk á staðnum,“ sagði hann.
Níger berst við tvo íslamska hryðjuverkahópa í landinu. Þegar herforingjar steyptu lýðræðislega kjörnum forseta, Mohamed Bazoum, af stóli 26. júlí nefndu þeir versnandi öryggisástand í landinu sem réttlætingu.