Þörf er á nýjum og óháðum mannúðarstofnunum á vegum Sameinuðu þjóðanna (SÞ) og annarra stofnanna í stað Palestínuflóttamannahjálparinnar (UNRWA).
Þetta sagði Benjamín Netanjahú, forsætisráðherra Ísraels, á fundi með sendiherrum SÞ í Jerúsalem í gær.
Segir hann að liðsmenn hryðjuverkasamtakanna Hamas séu búnir að koma sér í raðir UNRWA.
„Ég segi þetta með mikilli eftirsjá vegna þess að við vonuðumst til að það yrði til málefnaleg og uppbyggileg stofnun til að veita aðstoð. Við þurfum slíka stofnun í dag á Gasa, en UNRWA er ekki þannig stofnun,“ sagði Netanjahú.
Koma þessi ummæli í kjölfar alvarlegra ásakana í garð UNRWA um að 12 starfsmenn stofnunarinnar hafi tekið þátt í blóðugri hryðjuverkaárás Hamas-samtakanna í Ísrael þann 7. október þar sem hátt í 1.200 manns voru myrt, aðallega saklausir borgarar, og á þriðja hundrað gíslar teknir.
Síðan þessar ásakanir litu dagsins ljós hefur fjöldi vestrænna ríkja ákveðið að frysta framlög til stofnunarinnar eða tilkynnt einhvers konar frestun framlaga. Meðal þessara ríkja, auk framkvæmdastjórnar ESB, eru þjóðir eins og Ísland, Finnland, Svíþjóð, Bandaríkin, Þýskaland og fleiri.
UNRWA taka ásakanirnar alvarlega og rak stofnunin þá starfsmenn sem um ræðir um leið og ásakanirnar komu fram. Segir stofnunin mjög mikilvægt að framkvæmd verði óháð rannsókn á ásökunum Ísraelsmanna.