„Þetta var helvíti“

Yfirvöld í Chile settu á útgöngubann klukkan 21 á staðartíma …
Yfirvöld í Chile settu á útgöngubann klukkan 21 á staðartíma í gærkvöldi á meðan þúsundum var skipað að rýma heimili sín á viðkomandi svæðum. AFP/Javier Torres

Íbúar í Chile óttast að tala látinna hækki enn frekar af völdum skógareldanna sem geisa nú víðs vegar um Suður-Ameríku.

Að sögn yfirvalda hafa nú að minnsta kosti 64 látið lífið, þar á meðal sex sem létust af sárum sínum eftir að þeim var bjargað, lík liggja á götum úti og mörg heimili hafa eyðilagst í eldunum.

AFP-fréttaveitan greinir frá.

Hitabylgja í febrúar

Þá vöruðu yfirvöld í dag við flóknum og erfiðum aðstæðum þar sem barist er við elda í  ferðamannahéraðinu Valparaiso en þar fór hitinn upp í 40 gráður nú um helgina. 

Þéttan gráan reyk lagði yfir borgina Vina del Mar á miðströnd landsins í gær sem varð til þess að íbúar neyddust til að flýja. 

Forseti landsins, Gabriel Boric, hefur lýst yfir neyðarástandi í landinu og varað einnig við því að fórnarlömbum muni líklega fjölga. Hét hann því að stjórnvöld myndu styðja við fólk og hjálpa því að koma undir sig fótunum. Sjálfur flaug Boric yfir hamfarasvæðið í þyrlu í gær.  

Samkvæmt hamfaraþjónustunni SENAPRED höfðu næstum 26.000 hektarar orðið eldinum að bráð yfir mið- og suðurhluta svæðisins í dag en yfirmaður hennar, Alvaro Hormazabal, sagði að slökkviliðsmenn væru að berjast við 34 elda og hefðu náð stjórn á 43 nú þegar.

„Veðuraðstæður munu halda áfram að vera flóknar,“ er haft eftir honum í yfirlýsingu.

Fólki gert að yfirgefa heimili sín

Yfirvöld settu á útgöngubann klukkan 21 á staðartíma í gærkvöldi á meðan þúsundum var skipað að rýma heimili sín á viðkomandi svæðum.

Sögðust fréttamenn AFP hafa orðið vitni að því þegar heilu húsaþyrpingarnar, í hlíðunum umhverfis Vina Del Mar, brunnu til kaldra kola. 

Hafa yfirvöld neyðst til að loka veginum sem tengir Valparaiso-svæðið við höfuðborgina Santiago, sem er í um 1,5 klukkustunda fjarlægð, þar sem risastórt sveppaský af reyk skerti skyggni en að sögn innanríkisráðherrans, Carolina Toha, eru eldsvoðarnir um helgina þeir mannskæðustu í sögu Chile.  

Eru eldarnir sagðir knúnir áfram af hitabylgju og þurrkum, sem skekið hafa suðurhluta Suður-Ameríku, og er veðurfyrirbærinu El Nino kennt um en vísindamenn hafa varað við því að stigmagnandi hlýnun jarðar geti aukið hættu á náttúruhamförum eins og miklum hita og eldsvoðum. 

Þykkt sveppaský af reyk skerti skyggni svo loka þurfti vegum.
Þykkt sveppaský af reyk skerti skyggni svo loka þurfti vegum. AFP/ Rodrigo Arangua

Rigndi ösku

Hin 63 ára gamla Rosana Avendano var að heiman þegar eldurinn fór yfir El Olivar-hverfið, þar sem hún býr ásamt eiginmanni sínum.

„Þetta var hræðilegt vegna þess að ég komst ekki heim til mín. Eldurinn kom hingað... við misstum allt,“ sagði Avendano í viðtali við AFP.

„Maðurinn minn lá niðri og fann hitann úr eldinum koma og hljóp í burtu,“ bætti hún við. Þá óttaðist hún það versta í marga klukkutíma en tókst að lokum að ná sambandi við eiginmann sinn. 

„Þetta var helvíti,“ sagði Rodrigo Pulgar, frá bænum El Olivar, einnig í viðtali við AFP. „Ég reyndi að hjálpa nágranna mínum... húsið mitt var farið að brenna fyrir aftan okkur. Það rigndi ösku.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert