Skuldastaða Bandaríkjanna ósjálfbær

Jerome Powell, seðlabankastjóri Bandaríkjanna.
Jerome Powell, seðlabankastjóri Bandaríkjanna. AFP

Jerome Powell, seðlabanka­stjóri Banda­ríkj­anna, seg­ir að Banda­rík­in verði að ræða og taka á skulda­stöðu rík­is­sjóðs sem sé ósjálf­bær. 

Banda­rík­in skulda í dag rúma 34 bill­jón­ir dala, sem jafn­gild­ir um 4.600 bill­jón­um króna, sam­kvæmt upp­lýs­ing­um frá banda­ríska fjár­málaráðuneyt­inu. 

„Til lengri tíma litið þá eru Banda­rík­in á ósjálf­bærri fjár­hags­legri veg­ferð. Rík­is­sjóður Banda­ríkj­anna er á ósjálf­bærri fjár­hags­legri veg­ferð. Og það þýðir ein­fald­lega að skuld­astaðan vex hraðar en hag­kerfið,“ sagði Powell í viðtali hjá banda­ríska frétta­skýr­ing­arþætt­in­um 60 Minu­tes, sem CBS-sjón­varps­stöðin sýn­ir. 

Þurfa ræða mál­in eins og full­orðið fólk

Hann seg­ir að það sé orðið löngu tíma­bært að kjörn­ir full­trú­ar ræði um það eins og full­orðið fólk hvernig koma eigi rík­is­stjórn­inni á rétt­an kjöl.

„Ég held að flest­ir geri sér grein fyr­ir því að það er orðið tíma­bært að leggja aft­ur áherslu á fjár­hags­lega sjálf­bærni. Og það fyrr en síðar.“

Seðlabanki Banda­ríkj­anna ákvað í liðinni viku að halda stýri­vöxt­um óbreytt­um í fjórða sinn í röð. Bank­inn tók einnig fram að stýri­vaxta­lækk­un sé ekki fram und­an þrátt fyr­ir að vinnu­markaður­inn sé að efl­ast og verðbólg­an að hjaðna. 

Ólík­legt að stýri­vext­ir lækki í bráð

Næsta stýri­vaxta­ákvörðun er eft­ir sjö vik­ur og Powell sagði í viðtal­inu að það væri ósenni­legt að vænta megi lækk­un­ar á næsta fundi pen­inga­stefnu­nefnd­ar bank­ans. 

„Það besta sem við get­um gert núna er að vega og meta áhætt­una af því að bregðast við of snemma við áhætt­una af því að bregðast við of seint, og taka ákv­arðanir í raun­tíma. Sá tími nálg­ast, myndi ég segja, sem bygg­ir á því sem við bú­umst við.“

Meg­in­vext­ir bank­ans hafa ekki verið hærri í 23 ára og hafa hald­ist á milli 5,25 og 5,5%. 

Powell seg­ist eiga von á því að verðbólg­an muni halda áfram að hjaðna á þessu ári og að staðan verði met­in í mars. 

mbl.is
Fleira áhugavert

Erlent »

Fleira áhugavert