Tveggja saknað eftir sjóslys í Færeyjum

Fiskiskipið Kambur.
Fiskiskipið Kambur.

Fjórtán sjómönnum var bjargað með þyrlu en tveggja er enn saknað eftir að færeyskt fiskiskip fékk á sig brotsjó og sökk í morgun suður af Akrabergi á Suðurey syðst í Færeyjum.

Í tilkynningu frá færeysku sjóbjörgunarstöðinni sendi línubáturinn Kambur frá sér neyðarkall um klukkan 7.45 að færeyskum tíma í morgun. Þá var komin mikil slagsíða á skipið og áhöfnin var að undirbúa að fara í björgunarbáta. Skip og bátar á svæðinu héldu þegar í áttina að skipinu. Þyrla frá Atlantsflugi var send á staðinn og varðskipið Brimil. En atburðarásin var hröð og þegar aðstoð barst var skipið á hliðinni og áhöfnin stóð á skipssíðunni.

Fljótlega tókst að bjarga þrettán úr áhöfninni um borð í þyrluna en skilja varð einn eftir. Eftir að hafa flutt sjómennina þrettán á sjúkrahús á Suðurey fór þyrlan aftur að bátnum og tókst að bjarga manninum sem hafði þá hafst við á skipssíðunni í um þrjár stundir. Færeyskir fjölmiðlar segja, að Kambur hafi síðan sokkið um klukkan 10.30. 

Allir um borð í skipinu voru færeyskir. Tveggja manna er saknað og er talið að þeir hafi lokast inni í skipinu. Leit stendur yfir á svæðinu. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert