Leyniþjónusta dönsku varnarmálastofnunarinnar gaf nýlega út uppfært hættumat. Þar er birt mat á aðstæðum erlendis sem hafa áhrif á öryggi Danmerkur. Samkvæmt skýrslunni er Rússland metið sem veruleg ógn við Danmörku.
Leyniþjónusta varnarmálaráðuneytisins telur „mjög líklegt“ að Rússar hafi í hyggju að beita raunverulegum hervaldsaðferðum til að ögra NATO-ríkjum.
Þjónustan hefur áður gefið til kynna að Rússland muni í auknum mæli ögra NATO-ríkjunum. Nú er tónninn þó mun alvarlegri og leyniþjónustan segir „mjög líklegt“ að Rússar hafi í hyggju að beita raunverulegu hernaðarvaldi til þess.
Búist er við aðgerðum sem brjóta gildandi samninga og alþjóðlegar reglur, en eru undir viðmiðunarmörkum stríðs.
„Rússland verður áfram ógn við öryggi Vesturlanda til langs tíma. Samskipti Rússlands og Vesturlanda munu á komandi árum einkennast af óvissu sem engin fordæmi eru fyrir síðan á fyrstu árum kalda stríðsins,“ segir í skýrslunni.
Þá er einnig fjallað um mismunandi leiðir Rússlands til að ógna Vesturlöndum. Þar er nefnt áróðursherferðir, netárásir og hernaðarlegar ógnir við nágranna sína, fyrrum sovétríki.
Niðurstaða skýrslunnar segir stuðning Kína og náið samband ríkisins við Rússland auka á núverandi deilur á milli Kína og Vesturlanda, þar á meðal Danmerkur.
Staðan í Kína er spennuþrungin segir í skýrslunni. Þá er nefnd aukin spenna í kringum Taívan, þar sem Kína hefur styrkt hernaðarlega viðveru sína, og hert tök kínverskra stjórnvalda á borgaralegu samfélagi og í efnahagsmálum ríkisins.
Einnig er nefnt að samband Bandaríkjanna og Kína muni hafa mest afgerandi áhrif á utanríkis- og öryggisstefnu í heiminum á næstu árum.
Í skýrslunni kemur fram að stríðið á milli Ísrael og Hamas sýni að óleyst átök í nágrenni Evrópu geta stækkað hratt og valdið víðtækum svæðisbundnum óstöðugleika.
Vandamál í Miðausturlöndum og Afríku munu halda áfram að valda átökum og mannúðarkreppum, sem skapa aukinn frjóan jarðveg fyrir hryðjuverk og aukinn fólksflutninga.