Högg fyrir Haley

Nikki Haley etur kappi við Donald Trump um útnefningu Repúblikanaflokksins …
Nikki Haley etur kappi við Donald Trump um útnefningu Repúblikanaflokksins fyrir komandi forsetakosningar. Allt úlit er fyrir að Trump verði frambjóðandi flokksins. AFP

Enginn stóð uppi sem sigurvegari í forvali Repúblikanaflokksins fyrir komandi forsetakosningar sem fór fram í Nevada í Bandaríkjunum í gær. Málið þykir vandræðalegt fyrir frambjóðandann Nikki Haley, sem etur kappi við Donald Trump um útnefningu flokksins, þar sem hún tapaði fyrir „Engum af þessum frambjóðendum“.

Fram kemur í umfjöllun AFP að niðurstaðan hafi engin raunveruleg áhrif á kapphlaupið hjá Repúblikönum því engir fulltrúar frambjóðendanna voru á vettvangi, sem tengist deilu sem hefur staðið yfir á milli yfirvalda í Nevada og Repúblikanaflokksins í ríkinu. 

Þannig er mál með vexti að Repúblikanar í ríkinu vinna með forkosningu [e. Caucus] eins og í Iowa-ríki. Sú kosning er ekki fyrr en á fimmtudag og það er eina leiðin til að vinna þá 26 kjörmenn sem standa frambjóðendum til boða í ríkinu. Trump er þar í framboði og mun væntanlega fá alla 26 kjörmenn í þeirri kosningu, en Nikki er þar ekki í framboði.

Þetta er aftur á móti högg fyrir Haley, sem beið lægri hlut fyrir Trump í forvali flokksins í Iowa og New Hampshire, og útlit er fyrir að hún tapi fyrir forsetanum fyrrverandi í Suður-Karólínu, sem er hennar heimavöllur.

Niðurstaða lá fyrir um tveimur klukkustundum eftir að kjörstöðum lokaði. Haley hlaut 32% atkvæða á meðan „Enginn þessara frambjóðanda“ hlaut 61%. Þá var nafn Trumps ekki á kjörseðlum. 

Bandarískir fjölmiðlar, á borð við NBC og ABC, reikna með því að úrslitin standi. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert