Rússar taldir vilja kjarnavopn á sporbaug

Vladimír Pútín Rússlandsforseti við sjósetningu kjarnaknúna ísbrjótsins Leníngrad í Sankti …
Vladimír Pútín Rússlandsforseti við sjósetningu kjarnaknúna ísbrjótsins Leníngrad í Sankti Pétursborg í janúar. AFP

Stjórnvöld Rússlands eru talin hafa í hyggju að koma kjarnavopnum á sporbaug um jörðu. Áformin eru sögð ástæða þess að formaður njósnanefndar fulltrúadeildar Bandaríkjaþings gaf út sérstaka aðvörun í kvöld.

Formaður njósnanefndarinnar, Mike Turner, veitti þingmönnum aðgengi að gögnum sem varða alvarlega ógn við bandarískt þjóðaröryggi en frá þessu greindi fréttastofa CNN í dag.

Vladimír Pútín Rússlandsforseti. Ekki er talið að ætlun Rússa sé …
Vladimír Pútín Rússlandsforseti. Ekki er talið að ætlun Rússa sé að koma sér upp skotmörkum á jörðu niðri. AFP

Kjarnavopnaáætlun

Fréttastofa ABC og fleiri fjölmiðlar greina nú frá því að málið snúist um meintar áætlanir Rússa um að koma kjarnavopnum á sporbaug um jörðu.

Í fyrri umfjöllun CNN kom fram að ógn þessi snerist um að veikja hernaðarmátt annarra ríkja.

Nú hafa tveir heimildarmenn, sem þekkja til framgangs málsins í þinghúsinu á Capitol-hæð, ljóstrað því upp við ABC að þarna sé um kjarnavopnaáætlun að ræða.

Michael Johnson, forseti fulltrúadeildar þingsins, kveður þingheim vinna saman að …
Michael Johnson, forseti fulltrúadeildar þingsins, kveður þingheim vinna saman að nálgun við upplýsingar um nýja ógn er steðji að bandarísku þjóðaröryggi. AFP/Chip Somodevilla

Til höfuðs gervitunglum

Þetta ætlunarverk hafi leyniþjónustustarfsemi afhjúpað en ekki er talið að ætlun Rússa sé þar með að koma sér upp skotmörkum á jörðu niðri heldur beita vopnunum gegn gervitunglum á sporbraut um jörðu.

„Verulegt áhyggjuefni og mjög viðkvæmt,“ hefur ABC eftir öðrum heimildarmanna sinna sem kallar þetta „stórmál“ (e. big deal).

„Við hyggjumst vinna saman að nálgun þessa máls, eins og í öllum viðkvæmum málum sem leynd hvílir yfir,“ sagði Michael Johnson, forseti fulltrúadeildarinnar, við fjölmiðla þegar hann ávarpaði þá í þinginu síðdegis í dag.

„Ég fer þess á leit að [Joe] Biden forseti létti leynd af öllum upplýsingum sem þessari ógn tengjast svo þingið, stjórnsýslan og bandamenn okkar geti rætt opinskátt um þær aðgerðir sem nauðsynlegar eru til að bregðast við henni,“ sagði Turner.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert