Af gervihnattarmyndum að dæma þá hafa Egyptar á síðustu dögum verið að byggja múr vestur af Rafah-landamærunum við Gasa.
Egyptar viðurkenna ekki opinberlega uppbygginguna en Associated press hefur greint myndirnar og virðist lítill vafi vera á því að um umfangsmiklar framkvæmdir er að ræða.
ABC News greinir frá.
Gervihnattarmyndirnar, sem teknar voru á fimmtudag af Maxar Technologies, sýna áframhaldandi framkvæmdir á veggnum, sem liggur með fram Sheikh Zuweid-Rafah veginum um 3,5 kílómetra vestur af landamærunum að Gasa. Á myndunum má sjá krana, vörubíla og það sem virðist vera steyptir vegatálmar sem verið er að setja upp með fram veginum.
Ísraelsmenn hafa boðað sókn inn í Rafah-borg til að ganga á milli bols og höfuðs á hryðjuverkasamtökunum Hamas og virðast Egyptar óttast það að flóttamenn frá Gasa fari yfir landamærin.
Egyptar hafa hingað til ekki viljað taka við palestínskum flóttamönnum.