Missti 103 ættingja í loftárás Ísraela

Palestínumenn sitja við ónýta byggingu í gær eftir loftárás Ísraela …
Palestínumenn sitja við ónýta byggingu í gær eftir loftárás Ísraela á Gasaborg. AFP

Palestínumaðurinn Ahmad al-Ghuferi missti 103 ættingja í loftárás Ísraelshers á fjölskylduheimili hans í Gasaborg. Sjálfur var hann staddur 80 kílómetra í burtu, í bænum Jeríkó á Vesturbakkanum, sem er undir stjórn Ísraels.

Ahmad var að störfum á byggingasvæði í borginni Tel Aviv þegar Hamas-samtökin réðust á Ísrael 7. október og gat ekki snúið aftur til eiginkonu sinnar og þriggja ungra dætra vegna stríðsins sem fylgdi í kjölfarið og vegna vegatálma Ísraelshers.

Hann talaði við fjölskyldu sína á sama tíma á hverjum degi, þegar símasamband leyfði, og var einmitt í símanum við eiginkonu sína, Shireen, þegar árásin á heimilið var gerð kvöldið 8. desember.

„Hún vissi að hún myndi deyja“

„Hún vissi að hún myndi deyja,” sagði Ahmad í samtali við BBC. „Hún bað mig um að fyrirgefa sér fyrir það slæma sem hún gæti einhvern tímann hafa gert mér. Ég sagði henni að það væri engin þörf á því. Og þetta var síðasta símtalið okkar.”

Palestínskt barn í húsarústum í Gasaborg í gær eftir árás …
Palestínskt barn í húsarústum í Gasaborg í gær eftir árás Ísraelshers. AFP

Stór sprengja lenti á húsi frænda hans þetta kvöld og drap eiginkonu hans og þrjár ungar dætur, Tala, Lana og Najla.

Móðir Ahmad fórst einnig, ásamt fjórum bræðrum hans og fjölskyldum þeirra. Að auki fórust frænkur og frændur hans í tugatali. Samtals voru yfir 100 ættingjar hans drepnir í árásinni. Rúmum tveimur mánuðum síðar eru sum líkanna enn föst undir húsarústum.

Hefði orðið tveggja ára í síðustu viku

Yngsta dóttir hans hefði orðið tveggja ára í síðustu viku og er Ahmad enn að reyna að ná áttum eftir missinn. Hann gat hvorki haldið á líkum barna sinna né verið viðstaddur jarðarfarir þeirra vegna þess að þeim var flýtt. Hann talar enn um þau í nútíð og er andlit hans hreyfingarlaust undir stöðugum táraflauminum.

„Fyrir mér eru dæturnar mínar litlir fuglar,” sagði hann. „Mér finnst ég vera staddur í draumi. Ég trúi því ekki sem hefur komið fyrir okkur.”

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert