14.000 virkir í sænskum gengjum

Petra Lundh, ríkislögreglustjóri Svíþjóðar, fer yfir gengjatölfræði nýrrar skýrslu lögreglunnar …
Petra Lundh, ríkislögreglustjóri Svíþjóðar, fer yfir gengjatölfræði nýrrar skýrslu lögreglunnar á blaðamannafundinum. Skjáskot/Útsending SVT af fundinum

Fjórtán þúsund manns eru virkir í sænskum glæpagengjum, samkvæmt því sem fram kemur í nýrri skýrslu sænsku lögreglunnar, auk þess sem tengja má 48.000 manns við þessi sömu gengi með einhverjum hætti og eru þeir ekki taldir með þeim fyrrnefndu.

„Gengjastríðin sem við horfum á í formi sprengjutilræða og skotárása eru eins og toppurinn á ísjaka,“ sagði Petra Lundh ríkislögreglustjóri á blaðamannafundi í síðustu viku þar sem skýrsla lögreglunnar um gengjastríð og -ofbeldi var til umræðu og lét Gunnar Strömmer dómsmálaráðherra þau orð falla á fundinum að kringumstæðurnar væru með ólíkindum.

Stór hluti starfseminnar skipulagður erlendis

Fyrra mat lögreglu skilaði þeim tölum að um það bil 30.000 manns tengdust gengjaofbeldi í landinu öllu, það er að segja væru virkir í starfsemi gengjanna og hefðu tengsl við þau. Samkvæmt nýja matinu er þessi tala komin upp í 62.000 sem skýra má með betri yfirsýn lögreglu, að sögn Lundh ríkislögreglustjóra.

„Við horfum þá til allrar samvinnu innan þess ramma sem við skilgreinum sem skipulagða glæpastarfsemi. Þar getur verið um að ræða staðbundna brotastarfsemi, á landsvísu eða á alþjóðavettvangi,“ sagði Lundh og bætti því við að stór hluti starfseminnar væri nú skipulagður erlendis og stjórnað þaðan.

„Við sjáum að það sem lögð voru á ráðin um hér heima áður fyrr er nú skipulagt erlendis og framkvæmt hér. Þetta er okkur áskorun,“ sagði ríkislögreglustjóri.

Kærustur og foreldrar ekki með

Af þeim 14.000 sem lögregla telur virka í glæpagengjum reiknast henni til að 2.000 manns séu einhvers konar stjórnendur eða yfirmenn, 5.300 sjái um beina framkvæmd brota auk þess að afla gengjunum nýrra félaga.

Hvað þá 48.000 varðar, sem taldir eru hafa einhvers konar tengsl við starfsemi gengjanna, eru þar á ferð aðilar sem grunaðir hafa verið ásamt öðrum um brotastarfsemi eða tengjast að minnsta kosti tveimur félögum gengja – meirihluti þessa hóps tengist þó að meðaltali sex manns og tók ríkislögreglustjóri fram að kærustur og foreldrar færu ekki á þennan lista.

„Við vitum að meirihluti tengdu aðilanna fremja brot, einkum fíkniefnabrot,“ sagði Lundh á fundinum auk þess að opinbera þá tölfræði að 95 prósent þeirra 14.000 sem teljist virkir séu karlmenn, hlutfall kvenna sé hins vegar hærra í hópi tengdu aðilanna, nítján prósent, eða nær fimmtungur, þar séu konur.

Af virkum félögum gengja eru 88 prósent sænskir ríkisborgarar en af því hlutfalli hafa átta prósent einnig erlent ríkisfang auk þess sænska. Ellefu prósent eru erlendir ríkisborgarar eingöngu en óljóst er um ríkisfang eins prósents.

SVT

SVTII (sprengingar tengdar Foxtrot)

SVTIII (sprengjugerðarmaður Foxtrot)

Aftonbladet

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert