Varnarmálaráðherra Þýskalands, Boris Pistorius, segir orð Emmanuel Macron Frakklandsforseta ekki til þess fallin að efla stöðu Úkraínu.
Í síðustu viku hvatti Emmanuel Macron Frakklandsforseti bandamenn Úkraínu áfram og kallaði eftir því að bandamennirnir væru „ekki bleyður“.
Macron útlokaði ekki í síðustu viku að senda hermenn til Úkraínu.
Atlantshafsbandalagið greindi í kjölfarið frá því að hermenn bandalagsins væru ekki á leið til Úkraínu.
„Að mínu mati þurfum við ekki umræðu um hvort við ættum að senda hermenn á vígvöllinn eða um hvort þurfi að sýna meira eða minna hugrekki,“ sagði Pistorius og hélt áfram:
„Þetta er eitthvað sem er ekki til þess fallið að leysa þau vandamál okkar er varða stuðning okkar við Úkraínu.“
Pistorious svaraði spurningum blaðamanna á sameiginlegum fundi hans og varnarmálaráðherra Svíþjóðar, Pal Jonson, fyrr í dag.
Flestir bandamenn Macron í Evrópu hafa gefið það út að þeir muni ekki senda hermenn til Úkraínu.