Ísraelar gagnrýna harðlega ákvörðun Svía og Kanadamanna um að hefja að nýju fjárveitingar til Palestínuflóttamannahjálpar Sameinuðu þjóðanna, UNRWA.
Það að styðja UNRWA séu „veruleg mistök“, að því er segir í tilkynningu frá utanríkisráðuneyti Ísraels.
Svíþjóð og Kanada voru á meðal sextán þjóða sem frystu fjárveitingar til UNRWA eftir að grunsemdir vöknuðu um að stofnunin hefði hugsanlega átt aðild að árás hryðjuverkasamtakanna Hamas á Ísrael 7. október. Málið er til rannsóknar innan Sameinuðu þjóðanna.
Utanríkisráðuneyti Ísraels biðlar til ríkjanna um að stöðva fjárveitingar til stofnunarinnar og að „styðja ekki stofnun sem að hundruð hryðjuverkamanna Hamas starfa hjá“.
Svíar greindu frá því í dag að þeir hefðu úthlutað 400 milljónum sænskra króna til UNRWA fyrir árið 2024. Upphæðin nemur um fimm milljörðum íslenskra króna.
Stjórnvöld í Kanada sögðust á föstudag ætla að hefja fjárveitingar til stofnunarinnar á ný á meðan rannsókn á starfsfólki hennar stendur yfir.
UNRWA er stærsta stofnun innan Sameinuðu þjóðanna sem starfar á Gasa. Alls starfa 13.000 manns innan hennar á svæðinu.
Hjálparstarf stofnunarinnar hefur skipt sköpum á Gasa en Sameinuðu þjóðirnar hafa varað við því að hungursneyð sé þar yfirvofandi eftir fimm mánuði af árásum Ísraelshers.