Sprenging í raðhúsi hefndaraðgerð

Raðhúsið í Hässelby gjöreyðilagðist í sprengingunni í október og skemmdust …
Raðhúsið í Hässelby gjöreyðilagðist í sprengingunni í október og skemmdust alls átta hús í nágrenninu. Skotmarkið, 22 ára gamall maður, var ekki heima. Ljósmynd/Sænska lögreglan

Lögregla og ákæruvald í Stokkhólmi telja víst að öflug sprenging í Hässelby þar í borginni 2. október í haust hafi verið hefndaraðgerð fyrir skotárásina í Jordbro fáeinum dögum áður þar sem maður var skotinn til bana og annar hlaut skotsár en lifði.

Sprengingin í októberbyrjun gjöreyðilagði húsið sem auk þess brann í kjölfar hennar og eldur skemmdi nærliggjandi hús í lengjunni þar sem um raðhús var að ræða. Alls urðu átta hús í nágrenninu fyrir skemmdum.

Var sprengjutilræðinu beint gegn 22 ára gömlum manni sem skráður var til heimilis í húsinu en var ekki heima þegar tilræðismaðurinn lét til skarar skríða en sá síðarnefndi bíður nú dóms eftir að aðalmeðferð í máli hans lauk nýverið.

Mikil skelfing í hverfinu

Sætti sá, sem er 21 árs að aldri, ákæru fyrir stórfellt almannahættubrot og gálausa meðferð sprengiefnis en annar var ákærður fyrir samverknað með aðalákærða.

Voru sex manns alls grunaðir um mismikla aðild að skotárásinni í Jordbro og tveir þeirra handteknir fljótlega. Að sögn íbúa í nágrenninu sem sænska ríkisútvarpið SVT ræddi við í kjölfar árásarinnar greip mikil skelfing um sig þegar skothvellirnir hljómuðu og mátti, eftir því sem einn þeirra greindi frá, heyra þar öskur og vein frá vegfarendum en fórnarlömbin tvö lágu í blóði sínu þegar lögreglu bar að garði.

Flóttabifreið tveggja árásarmanna var ekið inn í stofu til íbúa …
Flóttabifreið tveggja árásarmanna var ekið inn í stofu til íbúa í Jordbro er þeir hugðust forða sér af vettvangi eftir að hafa skotið þar tvo menn, annan til bana. Sprengjutilræðið fáeinum dögum síðar er talið hafa verið hefndaraðgerð. Ljósmynd/Úr einkasafni

Flóttabifreið, sem tveir árásarmenn óku, hafnaði inni í stofu hjá Peter Eriksson, íbúa í Jordbro sem óttaðist að hús hans kæmi til með að hrynja saman þegar hávaðinn vakti hann með andfælum.

Taldi lögregla árásina tengjast uppgjöri Foxtrot, glæpagengis Rawa Majid, við annað gengi en íbúar Stokkhólms og nágrennis hafa fengið að finna fyrir óöldinni á eigin skinni síðan í fyrrasumar.

SVT

SVTII (skotárásin í Jordbro)

SVTIII (sprengingar í Hässelby og Huddinge)

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert