Telegram bannað tímabundið á Spáni

Telegram hefur verið bannað á Spáni vegna meintra brota á …
Telegram hefur verið bannað á Spáni vegna meintra brota á höfundarrétti. AFP

Spænskur dómstóll hefur bannað samskiptamiðilinn Telegram tímabundið vegna meintra brota á höfundarrétti nokkurra útvarpsstöðva. Bannið gildir fyrir allt landið, að því er fram kemur hjá fréttaveitu AFP.

Sérdómstóllinn Audiencia Nacional í Madríd, sem fer með lögsögu yfir allan Spán, dæmdi í nokkrum málum er vörðuðu höfundaréttarvarið efni útvarpsstöðva sem birtist á Telegram. Miðlar á borð við Mediaset, Atresmedia, Movistar og Egeda höfðuðu mál vegna notkunar Telegram á efni í þeirra eigu.

Miðillinn virkar þó enn á spænsku landsvæði.

Afhentu ekki gögn um notendur

Dómurinn fór fram á að stjórnendur Telegram á Virginíueyjum myndu afhenda gögn um reikninga sem stóðu á bakvið deilingu efnisins en það gekk ekki eftir. Greip dómurinn því til þess ráðs að banna miðilinn.

Telegram er samskiptamiðill sem gerir notendum kleift að eiga dulkóðuð samskipti sem yfirvöldum er torvelt að rekja. 700 milljónir manns nota miðilinn daglega.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert