Trump tengdur vettvangi hryðjuverkanna

Donald Trump var kjörinn forseti Bandaríkjanna árið 2016.
Donald Trump var kjörinn forseti Bandaríkjanna árið 2016. AFP/Joe Raedle

Ríki íslams myrti að minnsta kosti 40 manns í Crocus City-kjarnanum í útjaðri Moskvu, höfuðborgar Rússlands, í kvöld.

Eigendur kjarnans komust í heimspressuna árið 2016 vegna tengsla þeirra við Donald Trump, árið sem hann var kjörinn forseti Bandaríkjanna.

Crocus City er stór kjarni rétt fyrir utan borgarmörk Moskvu. Þar eru meðal annars tónleikahöll, verslunarmiðstöð og fundarsalir. 

Heimsfrægir uppistandarar og tónlistamenn hafa troðið upp í tónleikahöllinni en árið 2013 hélt Donald Trump þar keppnina Ungfrú alheim.

Tóku nýlega lán

Rússneski fasteignajöfurinn og milljarðamæringurinn Aras Agalarov lét byggja Crocus City árið 2009. Hann er rússneskur ríkisborgari en fæddist í Aserbaídsjan.

Aglarov var metinn á 1,2 milljarð bandaríkjadollara árið 2021, sem nemur um 166 milljörðum íslenskra króna. 

Forbes í Rússlandi tilkynnti þó í síðustu viku að Agalarov og sonur hans og viðskiptafélagi, Emin Agalarov, hafi tekið persónuleg lán í þeim tilgangi að reyna að bjarga fjölskyldufyrirtækinu.

Feðgarnir eru sagðir hafa báðir látið sjá sig á vettvangi í Crocus City eftir hryðjuverkaárásina í kvöld. 

Trump í tónlistarmyndbandi Aglarov

Emin, sem er einnig tónlistarmaður, fékk Trump til þess að koma fram í tónlistarmyndbandi við lag sitt stuttu eftir að forsetinn fyrrverandi hélt Ungfrú alheim í Crocus City-tónleikahöllinni árið 2013.

Tengsl Trumps við Agalarov fjölskylduna komust svo í heimspressuna í kringum forsetakostningarnar í Bandaríkjunum árið 2016. 

Þá var Emin sagður hafa skipulagt það sama ár að tengdasonur Trumps, Jared Kushner, og kosningastjóri Trumps, Paul Manafort, myndu hitta rússneska lögfræðinginn Natalíu Veselnítskaju sem hafði boðið fram skaðlegar upplýsingar um mótframbjóðanda Trumps, Hillary Clinton.

Trump hefur ekki tjáð sig um hryðjuverkin í Rússlandi þegar þetta er skrifað.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert