Bandaríski forsetaframbjóðandinn Robert F. Kennedy Jr. hefur kynnt Nicole Shanahan sem varaforsetaefni í komandi kosningum.
Kennedy Jr., sonur Robert F. Kennedy sem var bróðir John F. Kenndy, fyrrverandi forseta Bandaríkjanna, hefur gefið kost á sér til forseta í komandi kosningum og heldur úti sjálfstæðu framboði fjarri flokkum Demókrata og Repúblikana.
Shanahan er lögfræðingur sem auðgaðist mjög í tæknigeiranum í Kísildalnum í Bandaríkjunum.
Demókratar í Bandaríkjunum eru sagðir óttast framboð Kennedy Jr. og að hann muni draga til sín atkvæði frá forsetaefni þeirra Joe Biden, núverandi forseta.
Telja þeir að fortíðarþrá flokksmanna Demókrata til Kennedy-tímabilsins gæti dregið atkvæði úr þeirra fylkingu frá Biden til Kennedy Jr.
Shanahan hefur enga reynslu í stjórnmálum en hefur í gegnum tíðina stutt flokk Demókrata með fjárframlögum.
Hún auðgaðist mjög þegar hún stofnaði sprotafyrirtæki sem notaðist við gervigreind til þess að rýna í einkaleyfisbréf.
Kennedy Jr. var formaður samtaka sem börðust gegn bólusetningum barna í kringum tímabilið sem kennt er við heimsfaraldur.
Shanahan hefur lýst því yfir að hún sé ekki andsnúin bólusetningum en að aukning í aukaverkunum sökum bólusetninga sé áhyggjuefni.
Hún sagði í viðtali við The New York Times í febrúar á þessu ári að áhyggjur Kennedy Jr. um velferð barna hafi hvatt hana til þess að styðja við framboð hans.
Shanahan komst í slúðurblöðin þegar sögur fóru á kreik um að hún hefði haldið við Elon Musk, eiganda Teslu og X, þegar hún var gift Sergey Brin stofnanda Google.
Hún hefur þvertekið fyrir sögusagnirnar.