Andrúmsloftið í Úkraínu fer eftir gangi stríðsins í landinu. Þegar Rússar gerðu allsherjarinnrás fyrir tveimur árum leist íbúum landsins ekki á blikuna, en þegar tókst með öflugum vörnum að stökkva þeim á flótta tók bjartsýnin völdin.
Gagnsókn, sem blásið var til í fyrra gekk ekki sem skyldi og fyrir nokkrum vikum féll borgin Avdívka sem hefur vakið ugg í landinu. Tim Judah blaðamaður, sem skrifar fyrir The Economist og hefur skrifað greinar í The New York Review of Books, hefur verið í Úkraínu frá innrásinni og skrifaði merka bók um ásælni Rússa í Donbas og innlimun þeirra á Krímskaga árið 2014.
Í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins er grein eftir hann um ástandið í landinu undir yfirskriftinni Uggur í Úkraínu og er hér gripið niður í henni:
„Avdívka stendur hátt og var umkringd svæði undir yfirráðum Rússa á þrjá vegu. Hún var rækilega víggirt og þótt vitað hefði verið vikum saman hvað væri í vændum var fall hennar samt áfall sem hafði áhrif í byggðarlögunum meðfram allri austurvíglínunni og um Úkraínu alla.
Í huga hinna svartsýnu markaði fallið rof á molnandi víglínu og nú myndu hjarðir rússneskra vígamanna streyma í gegnum hana.
Ródíon Kúdrjasjov, varayfirmaður þriðju áhlaupssveitar, tók í annan streng. Hann hafði farið fyrir mönnum sínum þegar þeir hörfuðu frá bænum og hefur barist við Rússa í áratug. „Við höfum tapað lítilli orrustu, en við höfum ekki tapað stríðinu,“ sagði hann.“
Einn viðmælandi Judah er Oleksí Erintsjak. 16. febrúar opnaði hann stóra, nýja bókabúð, sem heitir Sens, á Krestsjatík, breiðgötunni glæsilegu í Kænugarði:
„Hann sagðist hvorki drekka áfengi né kaffi og ekki neyta sykurs og bætti við: „Ég er ekki með dópamíntoppa í lífi mínu!“ Hann sagðist hafa lesið bækur um síðari heimsstyrjöld og hafa áttað sig á að víglínan hreyfðist „vegna þess að það er stríð“ og „við getum ekki alltaf unnið og við getum ekki alltaf tapað“.
Hann kvaðst sannfærður um að Úkraína myndi sigra að lokum og þess vegna væri nauðsynlegt að hann gerði sitt með því að opna bókabúð, sem myndi hjálpa við að koma úkraínskri menningu á framfæri. Þannig legði hann sitt af mörkum við að skapa skilning á að hún væri hluti af evrópskri menningu, en ekki eitthvað „austrænt“.“
Í greininni er einnig fjallað um það hvernig hlutverk dróna í stríðinu hefur smátt og smátt farið vaxandi og hvernig þeir væru notaðir til að fylgjast með vígvellinum og ráðast á þá sem reyndu að bjarga særðum hermönnum og koma þeim í skjól:
„Þau sögðu mér frá vaxandi vandamáli. Nú væru á milli 30-40% sára af völdum dróna, en fyrir hálfu ári hefði varla nokkur særst af þeirra völdum. Hér áður fyrr þegar einhver særðist hefðu félagar hans getað sótt hann og komið í skjól og síðan hefði verið hægt að koma honum burt í bíl. Nú biðu stjórnendur drónanna, sem í það minnsta á meðan dagsbirtu nýtur sjá allt sem gerist hinum megin víglínunnar, þar til reynt væri að bjarga særðum mönnum og létu þá til skarar skríða.
Þannig gætu þeir fellt fleiri í einni atlögu. Fyrir vikið tæki lengri tíma að koma hinum særðu undan og það þýddi að fleiri létu lífið því að hjálp gæti ekki borist nógu hratt. Þess vegna færu björgunarleiðangrar aðallega fram á nóttunni.
Rússarnir byggju reyndar yfir drónum sem næmu hita og gætu greint fólk í myrkrinu, en þeir ættu mun færri slíka en venjulega dróna, sem ekki byggju yfir þessari tækni. Læknir á annarri sjúkrastöð sagði mér að helmingur særðra hefði orðið fyrir árásum dróna.“
Viðmælendur Judah eru misjafnlega bjartsýnir, en hjá mörgum er viðkvæðið að ekki eigi að láta hugfallast við ósigra því að þeir fylgi stríði heldur einfaldlega halda sínu striki:
„Jevhen Hlíbovitskí, sem leiðir hugveituna Frontier Institute, sagði að þrátt fyrir að erfið staða blasti við sæi hann engin merki þess að Úkraínumenn myndu brotna eða samþykkja að láta undan þrýstingi um að semja við Rússa um að gefa eftir landsvæði, sem þegar væri í þeirra höndum, fyrir frið. Hann sagði að það væri „engin krafa“ um þetta vegna þess að það væri ljóst að það myndi aðeins gefa Rússum tíma „til að vígvæðast að nýju og halda áfram“.
Vandinn væri að hans mati að þótt vestræn ríki vildu ekki að Rússar ynnu sigur óttuðust þau einnig afleiðingarnar af ósigri þeirra og því fengju Úkraínumenn ekki „skilvirk tól“ til að tryggja sér sigur. Hann sagði að í millitíðinni hefðu „Úkraínumenn lagað sig að og héldu áfram að laga sig að langvarandi stríði“. Það væri mikilvægt að smitast ekki af bölsýninni vegna þess að „bölsýni gerir þig óvirkan“.“
Grein Tim Judah má lesa í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins.