Jens Stoltenberg, framkvæmdastjóri Atlantshafsbandalagsins, NATO, hefur hvatt Bandaríkin til að halda samstarfi sínu áfram við Evrópu.
NATO heldur upp á 75 ára afmæli sitt í dag, á sama tíma og Rússar halda áfram árásum sínum á Úkraínu, auk þess sem Donald Trump, fyrrverandi Bandaríkjaforseti, hótaði því í febrúar að hann myndi hvetja Rússa til að ráðast á NATO-ríki sem stæðu ekki við fjárhagsskuldbindingar sínar.
„Ég trúi því ekki að Bandaríkin eigi að vera ein á báti, alveg eins og ég trúi því ekki að Evrópa eigi að vera ein á báti. Ég trúi á Bandaríkin og Evrópu saman í NATO vegna þess að saman erum við sterkari og öruggari,” sagði Stoltenberg við hátíðlega athöfn í höfuðstöðvum NATO í Brussel, höfuðborg Belgíu.