Ólympíuleikarnir skotmark Rússa

Emmanuel Macron Frakklandsforseti á blaðamannafundi í dag.
Emmanuel Macron Frakklandsforseti á blaðamannafundi í dag. AFP/Mogammed Badra

Emmanuel Macron Frakklandsforseti segir Rússa reka áróðurherferð með það að markmiði að grafa undan Ólympíuleikunum sem haldnir verða í París í sumar. Macron tjáði sig um málið fyrr í dag er hann var viðstaddur vígslu nýrrar ólympískrar sundhallar.

Rússar hafa aukið árásir sínar

Á blaðamannafundi var Macron spurður hvort hann teldi leikana í sumar vera skotmark Rússa. Macron sagðist ekki efa það. 

„Þar á meðal á sviði upplýsingaóreiðu. Á hverjum degi birta Rússar fréttir um að við getum ekki gert þetta eða hitt, til að gefa í skyn að leikarnir séu í hættu,“ sagði Macron. 

Frönsk stjórnvöld hafa gefið út að Rússar hafi nýlega aukið áróðursárásir á Frakkland. Til þess nota þeir meðal annars falsaða reikninga á samfélagsmiðlum sem dreifa sögusögnum og lygum.

Varaplan til staðar ef hryðjuverkaógn eykst

Þá staðfesti Macron á blaðamannafundinum að aðrar áætlanir séu til staðar um opnunarhátíð Ólympíuleikanna í júlí, ef hryðjuverkaógn eykst. Þetta er í fyrsta skipti sem forsetinn tjáir sig um mögulegar varaáætlanir opinberlega. 

Opnunarhátíðin á að fara fram á bátum í ánni Signu. Meira en 300.000 áhorfendur munu fá tækifæri til að fylgjast með hátíðinni frá hafnarbakkanum.

Sérfræðingar hafa varað við því að opnunarhátíðin, eins og hún er í núverandi mynd, sé mjög viðkvæm fyrir mögulegum hryðjuverkaárásum.

„Við verðum tilbúin,“ segir Macron.

„Við erum að undirbúa nokkrar sviðsmyndir. Ef ógnin þróast eða ef við teldum að aðstæður gera það nauðsynlegt, þá höfum við varasviðsmyndir til að grípa í.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert