Varað við inngripi hjá börnum með kynama

Fyrir nokkrum vikum ákvað NHS að kynþroskabælandi lyf yrðu ekki …
Fyrir nokkrum vikum ákvað NHS að kynþroskabælandi lyf yrðu ekki lengur veitt börnum yngri en 16 ára. AFP/Paul Ellis

Mikillar varúðar ætti að gæta áður en börn og ungmenni eru látin fá kynhormónabælandi lyf eða þau látin fara í kross­horm­ónameðferð. Skortur er á rannsóknum um langtímaáhrif þeirra og skoða ætti heildrænni nálgun þegar kemur að börnum sem glíma við kynama.

Þetta kemur fram í tímamótarannsókn sem barnalæknirinn Hilary Cass, fyrrverandi forseti félags barnalækna í Bretlandi, var fengin til að gera fyrir breska heilbrigðiskerfið (NHS) vegna mikillar fjölgunar barna sem fundu fyrir kynama á síðustu árum.

Skýrslan, sem er 400 blaðsíður, leggur til að NHS endurskoði viðmið um úthlutun lyfja sem stöðva kynþroska tímabundið og lyfja fyrir krosshormónameðferðir.

Fyrir nokkrum vikum ákvað NHS að kynþroskabælandi lyf yrðu ekki lengur veitt börnum yngri en 16 ára eftir að bráðabirgðaniðurstöður rannsóknarinnar voru birtar. Hins vegar geta 16 og 17 ára börn enn fengið hormón í formi testósteróns eða estrógens.

Óttast að tjá sig vegna hita málsins

Áhyggjur hafa aukist af innleiðingu læknisfræðilegra inngripa í ljósi skorts á sönnunargögnum um langtímaáhrif lyfjanna og ágæti þeirra á börn og ungmenni.

Málið hefur orðið umdeilt í Bretlandi, eins og í öðrum löndum. Cass benti á að hún hefði sætt gagnrýni fyrir að rannsaka málið. Hún segir að börnum hafi verið brugðist í ljósi skorts á sönnunargögnum um ágæti læknisfræðilegra inngripa og segir hún að börnin hafi orðið í skotlínunni á heitum samfélagslegum umræðum.

Sagði hún marga lækna ekki þora að tjá sig um málið vegna eineltishegðunar, sem þyrfti að hætta.

Mikilvægt að foreldrar hafi ekki áhrif á kyntjáningu

Tilmæli Cass fela í sér að heilbrigðisþjónusta fyrir börn með kynama skuli starfa samkvæmt sömu stöðlum og önnur heilbrigðisþjónusta fyrir börn og ungmenni. Skoða þyrfti hvern sjúkling heildrænt og myndi það fela í sér skimun fyrir taugaþroskasjúkdómum eins og einhverfu ásamt geðheilbrigðismati.

Í skýrslunni segir að fara þurfi varlegra í því að leyfa börnum að byrja að nota ákveðin fornöfn, breyta nöfnum eða klæðnaði. Í þeim tilvikum sem það gerist sé „mikilvægt að foreldrar séu ekki ómeðvitað að hafa áhrif á kyntjáningu barnsins“.

NHS gerir áætlun til að innleiða tilmæli

NHS skoðar nú tilmælin og vinnur að gerð áætlunar til að innleiða þau. Rishi Sunak, forsætisráðherra Bretlands, sagði mikilvægt að fara mjög varlega í læknisfræðileg inngrip á börnum og ungmennum vegna kynama.

„Við einfaldlega vitum ekki hver langtímaáhrifin af læknisfræðilegu inngripi né félagslegu breytingaferli eru á börnin,“ sagði Sunak.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert