„Kapall“ eigi vel við um Støre-stjórnina

Ingvild Kjerkol brestur í grát á blaðamannafundi á föstudaginn. Jonas …
Ingvild Kjerkol brestur í grát á blaðamannafundi á föstudaginn. Jonas Gahr Støre, sem misst hefur frá sér hálfa ríkisstjórn á mettíma, gaf henni 30 mínútur til að semja kveðjuræðu eftir að ljóst varð að hún hafði gerst sek um ritstuld í meistaraprófsritgerð við Nord-háskólann. AFP/Cornelius Poppe

Hadia Tajik, Anette Trettebergstuen, Anniken Huitfeldt og Ingvild Kjerkol eru bara þeir ráðherrar ríkisstjórnar Jonasar Gahr Støre, forsætisráðherra Noregs, sem horfið hafa úr embætti vegna einhvers konar hneykslismála þar sem ráðherrar hafa gerst sekir um brot sem teljast gegn góðri ráðsmennsku. Þá eru ótaldir þeir sem skipt hefur verið út úr þessari tveggja og hálfs árs gömlu ríkisstjórn.

Þegar allt er talið hefur hálf ríkisstjórn forsætisráðherra norska Verkamannaflokksins horfið á braut síðan hún leit dagsins ljós í kjölfar síðustu stórþingskosninga í Noregi. Engu að síður heldur Støre því fram í viðtali við norska ríkisútvarpið NRK að ríkisstjórn hans hafi í engu veikst og enginn sé ómissandi.

Gerðist sek um ritstuld

Kvenráðherrarnir sem horfið hafa á braut hafa allir verið áberandi í Verkamannaflokknum og lykilráðherrar í stjórninni. Eins og mbl.is hefur fjallað um síðustu ár hætti Tajik eftir að upp komst um íbúðasvindl af hennar hálfu, hún reyndist hafa leigt út íbúð sem hún hafði til umráða í sínu heimakjördæmi og sofið heima hjá foreldrum sínum þegar hún var þar á ferð.

Trettebergstuen reyndist hafa raðað vinum sínum í fjölda stjórna og nefnda þegar hún var menningar- og jafnræðismálaráðherra, Huitfeldt utanríkisráðherra kvaðst ekkert hafa vitað um hlutabréfakaup manns hennar sem meira og minna voru í fyrirtækjum, meðal annars í hergagnaiðnaði, sem norska stjórnin var á leið í stórsamninga við en hafði ekki tilkynnt um þá opinberlega enn þá.

Og Kjerkol heilbrigðisráðherra sagði af sér í dag. Hvað gerði hún af sér? Gerðist sek um ritstuld í meistaraprófsritgerð sem hún skrifaði með vinkonu sinni og samstúdent við Nord-háskólann. Að þeirri niðurstöðu komst nefnd í málefnum háskólastúdenta, Nemnda for studentsaker, við Nord-skólann í gær.

Brotnaði saman í kveðjuræðu

Í dag tilkynnti Støre brosandi í norsku konungshöllinni í Ósló um þrjá nýja ráðherra í stjórn sinni, þau Jan Christian Vestre heilbrigðisráðherra, Cecilie Myrseth viðskiptaráðherra og Marianne Sivertsen Næss sjávarútvegsmálaráðherra.

Støre þakkaði Kjerkol fyrir einstakt samstarf en heilbrigðisráðherrann fráfarandi var ekki viðstaddur í höllinni, það síðasta sem norska þjóðin sá af henni var þegar hún brotnaði saman í kveðjuræðu á blaðamannafundi á föstudaginn fyrir viku en Støre gaf ráðherranum sem hann hafði ákveðið að sparka úr stjórn sinni aðeins hálfa klukkustund til að semja ræðuna.

NRK skrifar í frétt sinni um brotthvarf síðustu ráðherra að orðið „kapall“ sem oft er notað um ráðherraskipan ríkisstjórnar eigi sérstaklega vel við um núverandi ríkisstjórn Verkamannaflokksins sem hefur tekið stórtækari mannabreytingum á tveimur og hálfu ári en flestar aðrar stjórnir í sögu Noregs.

NRK

Nettavisen

TV2

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka