Vísa mótmælanemendum úr skólanum

Mótmælendur veifa palestínskum fánum á skólalóðinni.
Mótmælendur veifa palestínskum fánum á skólalóðinni. AFP/Timothy A. Clary

Columbia-háskóli í New York hefur hafið brottvísanir á nemendum sem mótmæla nú á skólalóðinni.

Stjórnendur skólans kröfðust þess að nemendurnir myndu yfirgefa tjaldbúðirnar sem þeir hafa reist á skólalóðinni fyrir klukkan 14 í dag að staðartíma, eða kl. 18 að íslenskum tíma, en ellegar yrði gripið til refsingar gegn.

Mótmælendur ætla ekki að færa sig þrátt fyrir brottvísanir

Stúd­entarnir hafa tjaldað á skóla­lóðinni undanfarnir tvær vikur til að mót­mæla ástand­inu á Gasa­svæðinu. Kennslustundum hefur verið aflýst og mót­mæl­end­ur verið hand­tekn­ir.

Mót­mæl­in hafa breiðst frá Columbia-skólanum út til annarra há­skóla vítt og breitt um Bandaríkin, þar á meðal til háskóla á borð við Yale og MIT.

Tjald­búðir við Columbia- há­skól­ann.
Tjald­búðir við Columbia- há­skól­ann. AFP/Alex Kent

Forsvarsmenn mótmælanna sögðu í gær að hótanir háskólans um brottvísanir væru ekkert mál samanborið við andlát 34.000 Palestínumanna, en það er sú tala sem heilbrigðisyfirvöld á Gasasvæðinu, sem er á valdi Hamas-samtakanna, segja að hafi fallið í átökunum til þessa. 

„Við munum ekki færa okkur fyrr en Columbia uppfyllir kröfur okkar eða við verðum flutt í burt með valdi,“ sagði einn nemandi í samtali við AFP-fréttastofuna. 

Mótmælandi krotar yfir agaviðvörun frá háskólanum þar sem hann lýsir …
Mótmælandi krotar yfir agaviðvörun frá háskólanum þar sem hann lýsir yfir stuðningi við Palestínu. AFP/Alex Kent

Ben Chang, yfirmaður á samskiptasviði háskólans, sagði stuttu eftir klukkan tvö að staðartíma að brottvísanir á nemendum væru hafnar. Þetta væri hluti af aðgerðum skólayfirvalda til að tryggja öryggi á háskólasvæðinu.

Hann sagði að nemendur hefðu verið varaðir við því að þeim yrði vísað úr skóla, bannað að klára önnina og neitaður aðgangur að öllum rýmum háskólans ef þeir myndu ekki yfirgefa svæðið. 

Stúdentamótmæli gegn Gasa-stríðinu hafa reynst háskólastjórnendum víða um Bandaríkin flókin áskorun. Erfitt hefur reynst að ná jafnvægi milli málfrelsis nemenda og kvartana um að mótmælin séu birtingamynd gyðingahaturs.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert