Benjamín Netanjahú, forsætisráðherra Ísraels, segir að ráðist verði inn í Rafah á Gasa óháð því hvort samkomulag náist um vopnahlé og lausn gísla eða ekki.
Frá þessu greindi ísraelski forsætisráðherrann í dag.
„Hugmyndin um að við stöðvum stríðið áður en við höfum náð öllum markmiðum þess er út í hött. Við munum fara inn í Rafah og þurrka út allar Hamas-herfylkingar þar, með eða án samnings, til að ná algjörum sigri,“ segir í yfirlýsingu frá Netanjahú.
Þetta er ekki í fyrsta skipti sem Netanjahú hótar sókn í Rafah, sem er á landamærum Egyptalands og er eini staðurinn á Gasa sem Ísraelsmenn hafa ekki farið inn í.
Yfir milljón manna hefur leitað skjóls í Rafah á meðan sókn Ísraelshers hefur eyðilagt stóran hluta Gasasvæðisins.