TikTok og Universal sættust

UMG og TikTok endurnýjuðu ekki samn­ing sem rann út 31. …
UMG og TikTok endurnýjuðu ekki samn­ing sem rann út 31. janú­ar. Miklar deilur urðu þeirra á milli. AFP

Tónlist stærstu stjarna heims snýr nú aftur á TikTok, þar sem samfélagsmiðillinn hefur náð samkomulagi við Universal. Með því lýkur margra mánaða deilu sem leiddi til þess að mörg af vinsælustu lögum heims voru hreinsuð af appinu.

Fyrirtækin sendu frá sér sameiginlega yfirlýsingu í dag þar sem fram kemur að samningurinn feli í sér bætt launakjör fyrir listamenn og lagahöfunda Universal Music Group (UMG) og muni einnig draga úr áhyggjum af fjölgun efnis sem framleitt er með gervigreind á TikTok.

Hvorki Universal né TikTok greindu frá fjárhagslegum skilmálum samningsins. Sir Lucian Grainge, stjórnarformaður Universal, sagði samkomulagið marka kaflaskil í sambandi fyrirtækjanna.

TikTok-myndböndin þagna

Sáttin bindur enda á samningaviðræður sem úr slitnaði fyrr á þessu ári, þegar UMG og TikTok endurnýjuðu ekki samn­ing sem rann út 31. janú­ar. Ágreiningur varð þeirra á milli og fyrirtækin gagnrýndu hvort annað opinberlega í kjölfarið.

Universal, sem hefur listamennina Taylor Swift, Drake og Billie Eilish undir sínu merki, lét fjarlæga tónlist allra sinna listamanna af TikTok.

Milljónir TikTok-myndbanda urðu fyrir vikið hljóðlausar og margir tónlistamenn höfðu þar af leiðandi áhyggjur af því að tapa þeim miklu möguleikum til markaðsetningar sem TikTok býður upp á.

Gert að selja hlut Kínverja í appinu

En þótt lög tónlistarmanna snúa loksins aftur á TikTok þarf samfélagsmiðillinn nú að hafa áhyggjur af annars konar lögum.

Bandaríkjaþing samþykkti nefnilega í síðustu viku frumvarp til laga sem þving­ar eig­end­ur TikT­ok að losa sig við kínverska eig­end­ur sína ell­egar eiga yfir höfði sér bann í Bandaríkjunum. 

Notendur smáforritsins eru 170 milljónir talsins í Bandaríkjunum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert