Drengur hlynntur öfgahyggju skotinn af lögreglu

Ástralskir lögreglumenn. Myndin tengist fréttinni ekki beint.
Ástralskir lögreglumenn. Myndin tengist fréttinni ekki beint. AFP/David Gray

Ástralska lögreglan skaut til bana 16 ára dreng sem stakk mann með hnífi á bílastæði í Perth. Drengurinn var hlynntur öfgahyggju að sögn lögreglu. 

Drengurinn veittist að lögreglu sem leiddi til þess að hann var skotinn tvisvar með rafbyssu áður en hann var skotinn til bana. 

Að sögn lögreglu var drengurinn hlynntur öfgahyggju á netinu. Þá bendir allt til þess að hann hafi verið einn að verki. 

Fór ekki eftir fyrirmælum lögreglu

Lögreglunni barst símtal í gærkvöldi frá karlmanni þar sem hann sagðist ætla beita ofbeldi. Hann gaf þó ekki upp nafn né staðsetningu. 

Nokkrum mínútum síðar barst tilkynning um mann sem hljóp um bílastæði með hníf í Willetton-hverfi í Perth. 

Myndskeið úr búkmyndavélum lögreglunnar sýna hvernig drengurinn neitaði að láta frá sér eldhúshníf.

Lögreglumenn skutu þá tveimur skotum úr rafbyssum „sem höfðu ekki þau áhrif sem vonast var eftir“. 

Drengurinn veittist að lögreglumanni sem skaut hann einu skoti. Drengurinn lést á sjúkrahúsi síðar um nóttina. 

Hótaði múslimum

Maðurinn sem var stunginn er á miðjum aldri og er ástand hans alvarlegt en stöðugt. Drengurinn stakk hann einu sinni í búkinn. 

Lögreglan greindi frá því að drengurinn hafði sent skilaboð á samfélag múslima. Þeir sem fengu skilaboðin höfðu strax samband við lögreglu. 

Að sögn lögreglu glímdi drengurinn við andleg veikindi. 

Þá hafði hann síðustu tvö ár tekið þátt í verkefni lögreglu sem miðar að því að koma í veg fyrir brot öfgahyggjumanna. 

Lögregla sagðist ekki vita hver tildrög hnífaárásarinnar voru. 

Anthony Albanese, forsætisráðherra Ástralíu, greindi frá því á samfélagsmiðlum að hann hafi verið upplýstur um stöðu mála af lögreglu. Þá sagði hann að Ástralía væri ekki staður fyrir öfgahyggju. 

Fjölgun hnífaárása

Minna en mánuður er síðan Joel Cauchi myrti sex manns í verslunarmiðstöð í Sydney. Hann var einnig skotinn til bana af lögreglu. 

Foreldrar hans greindu frá því að hann hefði verið greindur með geðklofa 17 ára gamall. Hann hætti að taka lyf við veikindum og sækja viðeigandi meðferð.  

Tveimur dögum eftir árásina í Sydney var biskup stunginn í vesturhluta Sydney. Þeirri árás var streymt á netinu. 

Biskupinn er á batavegi og var 16 ára einstaklingurinn handtekinn vegna árásarinnar. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert