Vladimír Pútín Rússlandsforseti varaði í gær við því að kjarnavopnasveitir hans væru ávallt viðbúnar og að í Moskvu væri engin þolinmæði fyrir hótunum Vesturlanda. Þetta sagði þjóðarleiðtoginn er hann ávarpaði árlega skrúðgöngu á sigurdeginum 9. maí, þar sem minnst er sigurs Rússlands á Þýskalandi nasismans í heimsstyrjöldinni síðari.
Pútín lofaði herliðið sem enn berst við heimamenn handan landamæranna í Úkraínu, frammi fyrir þúsundum skrúðklæddra hermanna sem saman voru komnar á Rauða torginu, og sakaði „vestræna elítu“ um að kynda undir ófriðarbáli um allan heim.
„Rússland mun gera allt til að koma í veg fyrir heimsátök, en á sama tíma munum við ekki líða neinum að hóta okkur. Strategískar hersveitir okkar eru alltaf á varðbergi,“ tjáði forsetinn viðstöddum og vísaði þar til þess hluta hersins sem hefur umsjón með kjarnavopnabúrinu.
Hann hélt áfram: „Kæru vinir. Rússland gengur nú í gegnum erfitt, mikilvægt tímabil. Örlög móðurlandsins, framtíð þess, velta á hverjum og einum okkar.“
Hátíðarhöldin 9. maí eru nú orðin mikilvægasti almenni frídagur Rússa, á sama tíma og landið allt hefur færst í meiri stríðsbúning undir stjórn Pútíns, sem haldið hefur um valdataumana frá því fyrir aldamót.
Forsetinn hafði fyrr í vikunni, á þriðjudag, svarið embættiseið að nýju við upphaf nýs sex ára kjörtímabils. Ljúki hann því kjörtímabili verður hann þaulsætnasti leiðtogi Rússlands frá því Katrín mikla keisaraynja réð ríkjum á 18. öld.
Allt frá því Rússar réðust inn í Úkraínu 24. febrúar 2022 hefur forsetinn ítrekað vísað til kjarnavopna í orðræðu sinni. Frá því á síðasta ári hefur hann þó gerst herskárri í þessum efnum, dregið ríkið út úr samningi um bann við kjarnavopnatilraunum og einnig úr mikilvægum afvopnunarsamningi við Bandaríkin.
Nánari umfjöllun er að finna í Morgunblaðinu í dag.