Joe Biden Bandaríkjaforseti segir að vopnahlé á Gasa geti orðið mögulegt á morgun, sunnudag, ef Hamas-samtökin samþykkja að frelsa gíslana sem þau tóku í hald þann 7. október.
„Það yrði vopnahlé á morgun ef Hamas-samtökin myndu sleppa gíslunum,“ sagði Biden á fjáröflunarviðburði í Seattle-borg í kvöld. Hann hefur forðast umræðuefnið á þremur svipuðum viðburðum í gær.
„Ísraelar sögðu að það væri Hamas-samtakanna að gera þetta, ef þau vilja. Við getum bundið enda á þetta á morgun. Og vopnahléið myndi hefjast á morgun,“ sagði Biden við um 100 manna hóp.
Forsetinn vakti máls á þessu eftir að hafa varað Ísraela við því á miðvikudag að Bandaríkin myndu hætta að útvega Ísraelum vopn ef Ísraelar gerðu árás á borgina Rafah á suðurhluta Gasa.
Ísraelsmenn og Hamas-samtökin hafa enn ekki náð að semja um varanlegt vopnahlé þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir. Ísrael hafnaði vopnahléstillögu Hamas-samtakanna á dögunum. Benjamín Netanjahú forsætisráðherra Ísraels lýsti því yfir að ríkisstjórn hans gæti ekki fallist á samkomulag sem Hamas-liðar höfðu áður samþykkt.