Vladimír Pútín, forseti Rússlands, hefur vikið varnarmálaráðherra landsins til 12 ára úr embætti og tilnefnt efnahagsráðgjafa sinn, sem hefur engan bakgrunn í hernaði, til að taka við embættinu.
Pútín hefur tilnefnt hagfræðinginn Andrej Belúsov til þess að taka við af Sergei Shoígú, fráfarandi varnarmálaráðherra.
Shoígú var skipaður varnarmálaráðherra Rússlands árið 2012. Ráðherrakapallinn kemur á sama tíma og rússneskar hersveitir sækja fram á vígvellinum í fyrsta sinn í marga mánuði.
Pútín birti jafnframt tilskipanir um að Shoígú yrði útnefndur sem nýr ritari öryggisráðs Rússlands í stað Nikolaj Patrúsjév, bandamanns Pútíns til margra ára.
„Shoígú mun starfa áfram í þessum geira [varnarmálum], sem hann þekkir vel,“ hefur AFP-fréttaveitan eftir Dmitrí Peskov, talsmanni Kremlar.
Pútín þarf samkvæmt stjórnarskrá að tilnefna nýja ráðherra, eða endurskipa þá sem þegar sitja, eftir sigur sinn í kosningum í mars. Þingið þarf síðan að samþykkja tilnefningarnar en til stendur að gera það á þriðjudag.
Þrátt fyrir ýmis áföll í innrásinni í Úkraínu hefur Pútín staðið með Shoígú fram að þessu, jafnvel í uppreisn Wagner-málaliða í fyrra, þar sem afsagnar Shoígú var krafist.
Belúsov, hefur engan hernaðarlegan bakgrunn en hefur þó verið einn áhrifamesti efnahagsráðgjafi Pútíns undanfarinn áratug.