Hvetja konur til að hætta notkun getnaðarvarna

Áhrifavaldar eru í auknu mæli farnir að hvetja fylgjendur sína …
Áhrifavaldar eru í auknu mæli farnir að hvetja fylgjendur sína til að hætta notkun getnaðarvarna. AFP

Bandarískir áhrifavaldar eru í auknum mæli farnir að hvetja fylgjendur sína til að hætta notkun getnaðarvarna með fullyrðingum um að getnaðarvarnir leiði til ófrjósemi og minnki kynhvöt. 

Holskefla villandi og jafnvel rangra upplýsinga fer nú um samfélagsmiðla á borð við TikTok og Instagram á sama tíma og æxlunarréttindi leika aðalhlutverk í yfirvofandi forsetakosningum, í landi þar sem fóstureyðingar eru bannaðar eða takmörkunum háðar í nær helmingi ríkja. 

Segir getnaðarvarnir eitraðar

Fjöldi áhrifavalda, sem ekki eru læknismenntaðir, virðast tilheyra hópi sjálfskipaðra heilsugúrúa sem afla tekna með því að miðla röngum upplýsingum um „lækningaolíur“ og frjósemismælingar. 

Þá er fólki sem leitar áreiðanlegra upplýsinga um getnaðarvarnir mætt með spjallmennum sem leggja ofuráherslu á aukaverkanir lyfja. 

Einn þessara sjálfskipuðu heilsugúrúa er Taylor Gosset, TikTok-áhrifavaldur með tæplega 200.000 fylgjendur, en hún hefur sagt getnaðarvarnir beinlínis eitraðar og býður fylgjendum sínum að sitja „meistaranámskeið“ sitt í „náttúrulegum“ getnaðarvörnum. 

Í TikTok-myndböndum íhaldssama fréttaskýrandans Candace Owens segir að getnaðarvarnir valdi ófrjósemi á sama tíma og lífsþjálfarinn Naftali Moses segir fylgjendum sínum, sem eru 280.000 talsins, að getnaðarvarnir breyti kynhegðun þeirra. 

Getnaðarvarnir hafi áhrif á makaval 

Umræðan virðist jafnframt eiga sér stað á vettvangi hlaðvarpa í Bandaríkjunum því hlaðvarpsstjórnandinn Sahara Rose kallaði getnaðarvarnir „skilnaðarpilluna“ í myndbandi sem hefur hlotið rúmlega 550.000 áhorf. Auk þess fullyrti hún að getnaðarvarnir hefðu áhrif á það hvernig einstaklingur laðast að öðrum einstaklingi og leiddu þannig til þess að notendur veldu sér rangan maka. 

Áhrif pillunnar á kynhvöt hafa verið til umræðu í áratugi og konur kvartað undan áhrifum hennar á kynhvöt þeirra. Læknar segja kvartanir og reynslu afmarkaðs hóps kvenna þó ekki til marks um orsakatengsl þarna á milli. 

Á sama hátt segja sérfræðingar engin bein orsakatengsl milli getnaðarvarnapillunar og útbreiddrar ófrjósemi eða breyttrar kynhegðunar. 

Aukinn ótti 

„Mesta áhyggjuefnið í þessu pólitíska umhverfi sem nú ríkir í Bandaríkjunum er að rangar upplýsingar um getnaðarvarnir geta leitt til þess að fólk verði ólétt... og nú hefur það kannski ekki aðgang að fóstureyðingum,“ segir Michael A. Belmonte, nemandi í fæðingar- og kvensjúkdómalækningum, í samtali við AFP. 

Kvaðst hann persónulega hafa meðhöndlað sjúklinga sem urðu þungaðir í kjölfar þess að sniðganga getnaðarvarnir vegna „skaðlegra rangra upplýsinga“ sem þeir höfðu fengið á netinu. 

„Þessi aukning rangra upplýsinga um getnaðarvarnir tengist takmörkuðu aðgengi að fóstureyðingum í fjölda ríkja,“ segir Jenna Sherman, rannsakandi rangra upplýsinga, í samtali við AFP og bætir við að margar rangfærslur á netinu séu birtar af „andstæðingum fóstureyðinga“.

„Fólk þarf meiri upplýsingar til að geta tekið ákvarðanir um æxlunarheilbrigði en það óttast að tala við heilbrigðisstarfsfólk,“ segir hún. 

Skömm og fordómar

Ein þeirra leiða sem fjöldi áhrifavalda mælir með byggist á frjósemisvitund og felst í því að fylgjast vandlega með tíðahringnum og líkamshitanum, tímasetja kynlífið í takt við það og forðast þannig frjósemisgluggann. 

Sérfræðingar segja þessa leið þó skila mun lakari árangri en læknisfræðilegar getnaðarvarnir og leiði frekar til óæskilegra þungana. 

Þá mælir fjöldi áhrifavalda með því að hætta á getnaðarvörnum til að léttast, þrátt fyrir að rannsóknir bendi ekki til þess að getnaðarvarnir valdi þyngdaraukningu. Oft eru þessar hvatningar áhrifavalda settar fram með dramatískum fyrir- og eftir-myndböndum. 

„Þetta er líklega að stuðla að frekari skömm, fitufordómum og brenglaðri líkamsímynd,“ segir Sherman sem hvetur þá sem vilja hætta á getnaðarvörnum til að ráðfæra sig við lækna áður en ákvörðunin er tekin.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert