Vilja minnka innflutning til Bretlands

Rishi Sunak smakkar ber á fundinum.
Rishi Sunak smakkar ber á fundinum. AFP

Bretar þurfa að reiða sig minna á innflutning ávaxta og grænmetis. Rishi Sunak, forsætisráðherra Bretlands, segir þetta mikilvægt til að tryggja fæðuöryggi sem sé í forgangi þegar hugað er að loftslagsógninni.

Þetta kom fram á fundi hans með um 70 bændum, en þar ítrekaði hann að bændastéttin væri nauðsynleg fyrir öryggi og uppbyggingu landsins.

Ný gögn ríkisstjórnarinnar sýna að í Bretlandi er framleitt 55% af grænmetinu og aðeins 17% af þeim ávöxtum sem enda á diskum breskra heimila. Annar landbúnaður sé með um 60% af þeim mat sem neytt er í Bretlandi, en bændur óttast að hlutfallið fari lækkandi.

Áhrif Brexit?

Eftir útgöngu Breta úr Evrópusambandinu segja bændur að þeir viðskiptasamningar sem ríkisstjórnin hefur undirritað, sem og skortur á innflutningseftirliti, geri það að verkum að gæði þeirra matvæla sem innflutt eru séu af lakari gerðinni.

Mótmæli hafa átt sér stað undanfarna mánuði gegn landbúnaðarstefnu ríkisstjórnar Sunaks og íhaldsflokksins.

Síðustu 18 mánuðir hafa verið þeir blautustu sem mælst hafa í Englandi, en síðustu sex mánuðir þeir næstblautustu í öllu Bretlandi. Þessi veðurskilyrði haft slæm áhrif á uppskeru og sett þrýsting á bændur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka