Transfólk: „Við erum ekki veik“

Fjöldi fólks mótmælti.
Fjöldi fólks mótmælti. AFP/Cris Bouroncle

LGBTQ hópar mótmæltu fyrir utan heilbrigðisráðuneyti Perú í fyrradag vegna ákvörðunar stjórnvalda um að flokka trans sem geðröskun.

„Við getum ekki búið í landi þar sem við erum talin veik,“ sagði Jorge Apolaya, talsmaður réttindahópsins Collective Pride March, við fréttastofu AFP í fyrradag. 

Stjórnvöld ákváðu að bæta trans á lista yfir heilsuraskanir sem eru vátryggðar, til að tryggja transfólki þjónustu.

Óánægja ríkir meðal transfólks með þessa ákvörðun stjórnvalda.
Óánægja ríkir meðal transfólks með þessa ákvörðun stjórnvalda. AFP/Cris Bouroncle

Fyrir þá sem þurfa á aðstoð

Fleiri en 200 aðgerðarsinnar söfnuðust saman fyrir utan heilbrigðisráðuneytið til að krefjast þess að stjórnvöld myndu endurskoða ákvörðunina. Hrópuðu aðgerðarsinnar ýmist „þetta er ekki sjúkdómur, þetta er fjölbreytileiki“ eða „við erum trans og við erum ekki veik“.

Stjórnvöld segjast ekki ætla að breyta ákvörðuninni. Embættismaður heilbrigðisráðuneytisins sagði við AFP að ef það yrði gert væri verið að afnema rétt transfólks til umönnunar.

Stjórnvöld hafa sagt að þau líti ekki á kynjafjölbreytni sem sjúkdóm, en með því að flokka trans sem geðröskun sé verið að víkka út geðheilbrigðisvernd fyrir þá sem vilja eða þurfa á henni að halda. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert