Dæmdur í 25 ára fangelsi fyrir að ætla að kveikja í

Eftir að Rússar réðust inn í Úkraínu fjölgaði tilraunum til …
Eftir að Rússar réðust inn í Úkraínu fjölgaði tilraunum til að kveikja í skrifstofum hersins þar í landi. Myndin er frá skóla í Moskvu sem molotov-kokteil var kastað að í aðdraganda kosninganna í byrjun árs. AFP/Olga Maltseva

Maður hefur verið dæmdur í 25 ára fangelsi fyrir að ætla að kveikja í skrifstofu rússneska hersins í Síberíu árið 2022.

Eftir að Rússar réðust inn í Úkraínu fjölgaði tilraunum til að kveikja í skrifstofum hersins þar í landi. 

Herdómstóll í borginni Novosibirsk dæmdi Ilya Baburin til fangelsisvistarinnar og sakaði hann um að aðstoða Asov-hersveitirnar. Þær sam­an­standa af úkraínsk­um þjóðern­is­sinn­um og öfga­hægri­mönn­um sem hafa barist gegn rússneska hernum. 

Mannréttindahópar segja að um sögulega þungan dóm sé að ræða fyrir atvik sem átti sér ekki stað. 

Dómstóllinn vill meina að Baburin „hefði búið til áætlun um að kveikja í skrifstofu hersins í Novosibirsk“. Til þess réði hann einstakling til þess að kasta molotov-kokteil í átt að skrifstofunni. Sá sem hann réði tilkynnti Baburin hins vegar til rússnesku leyniþjónustunnar FSB.

Dómstóllinn telur að Baburin hafi farið að skipunum Úkraínumanna og að hann hafi verið í samskiptum við Asov-sveitirnar. 

FSB að koma sér í mjúkinn

„Ég kveikti ekki í neinu,“ sagði Baburin er hann mætti fyrir dómstólinn. 

Hann sagði að FSB væri að reyna að „afla sér stiga“ hjá yfirvöldum í Moskvu með því að „rannsaka fáránlega glæpi“.

Baburin var handtekinn í september árið 2022 og fundinn sekur um fjölda brota, meðal annars „hryðjuverk“ og „landráð“.

Vasilí Dúbkov, verjandi hans, hélt því fram fyrir dómstólnum fyrr í mánuðinum að „enginn hefði orðið fyrir skaða“.

„Baburin lítur ekki út eins og njósnari sem upplýsir um ríkisleyndarmál. Hann hafði ekki upplýsingar um slík né gat upplýst um neitt um slíkt,“ sagði Dúbkov. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert