Karlmaður á þrítugsaldri hefur verið handtekinn í Svíþjóð grunaður um að hafa skotið tvo til bana í íbúð í fjölbýlishúsi í Hageby-hverfinu í Norrköping í nótt.
Lögreglunni í Svíþjóð barst tilkynning vegna málsins frá íbúa í nærliggjandi íbúð skömmu eftir miðnætti. Sænski ríkismiðillinn SVT greinir frá.
Mats Pettersson, fjölmiðlafulltrúi lögreglunnar í Öst, segir þann grunaða hafa verið handtekinn fyrir alvarlegt vopnalagabrot en leggur áherslu á að það geti breyst, enda grunaður um morð.
Lögreglan er með mikinn viðbúnað á staðnum og hefur afgirt svæði í kringum húsið. Í frétt SVT segir að lögreglan hafi lagt hald á nokkra hluti sem taldir eru mikilvægir fyrir rannsókn málsins.