Róttækir sækja á en hófsamir halda velli

Flokkur Le Pen gjörsigraði kosningarnar í Frakklandi.
Flokkur Le Pen gjörsigraði kosningarnar í Frakklandi. AFP/Julien De Rosa

Miðju- til hægriflokkahópurinn EPP, eða Kristilegir demókratar, heldur flestum þingsætum á Evrópuþingi miðað við útgönguspár. Á sama tíma sækja róttækir hægriflokkar í sig veðrið.

Kjósendur í 21 af 27 ríkjum Evrópusambandsins gengu til kosninga í dag. Samkvæmt útgönguspám heilt yfir Evrópu halda þrír hófsamir flokkahópar áfram meirihluta í Evrópuþinginu. Kristilegir demókratar eru með 181 þingsæti og bæta við sig 10 þingsætum.

Þar á eftir kemur flokkahópur Jafnaðarmanna með 135 þingsæti og svo kemur flokkahópur Frjálslyndra með 82 sæti. Í Evrópuþinginu eru 720 þingsæti og hófsömu flokkarnir því með meirihluta áfram. 

Flokkur Le Pen með yfirburði í Frakklandi

Aðrir hægriflokkar og róttækir hægriflokkar eru ansi tvístraðir á Evrópuþinginu en eru samanlagt að fá á annað hundrað þingsæti.

Í Frakklandi er hægriflokkur Le Pen að gjörsigra en í útgönguspám fær hann um 33% fylgi á sama tíma og flokkur Emmanuels Macrons Frakklandsforseta fær um 15%.

Macron tilkynnti í kvöld að hann myndi leysa upp Frakklandsþing og efna til nýrra þingkosninga eftir nokkrar vikur.

AFD með meira fylgi en Jafnaðarmannaflokkurinn

Í Þýskalandi fá Kristilegir demókratar um 30% fylgi. Jafnaðarmannaflokkur Olaf Scholz Þýskalandskanslara fær um 14% fylgi sem er minna en róttæki hægriflokkurinn AFD, sem er með 16% fylgi.

Miðað við fyrstu útgönguspár á Ítalíu fær hægriflokkur Giorgiu Meloni um 25-31% atkvæða og er með mest fylgi. Næstmest fylgi hlýtur vinstrisinnaði Lýðræðisflokkurinn og þar á eftir fylgja hægriflokkar.

Á Spáni vann hægrisinnaði Partido Popular 22 þingsæti en Sósíalistaflokkur forsætisráðherrans Pedro Sanchez laut í lægra haldi með 20 sæti. Þar á eftir kom róttæki hægriflokkurinn Vox.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka