Frekari blóðsúthellingar geti aðeins hjálpað

Yahya Sinwar, leiðtogi Hamas.
Yahya Sinwar, leiðtogi Hamas. AFP

Skilaboð sem Yahya Sinwar, leiðtogi Hamas-samtakanna, hefur sent sýna að Sinwar trúi að frekari blóðsúthellingar palestínskra íbúa geti aðeins hjálpað samtökunum í stríði þeirra við Ísrael.

Trúir Sinwar að Hamas geti haldið út lengur en Ísraelar búist við í stríði á milli þeirra og setji það pressu á Ísrael vegna mannfallsins sem fylgi átökunum. 

Í tugum skilaboða, sem miðillinn the Wall Street Journal hefur komist yfir og skoðað, sýnir leiðtogi Hamas-samtakanna kalt viðhorf gagnvart lífum almennra borgara og trúir hann því að Ísrael hafi meiru að tapa á stríðinu en Hamas.

Nauðsynlegar fórnir

Fleiri en 37.000 manns hafa látist á Gasasvæðinu frá því að stríðið hófst og eru flestir þeirra almennir borgarar. 

Í einum skilaboðum til Hamas-liða í Doha vitnar Sinwar til sjálfstæðisbaráttu ríkja á borð við Alsír þar sem mörg hundruð þúsund saklausir borgarar létust.

„Þetta voru nauðsynlegar fórnir,“ er haft eftir Sinwar.

Sýna mörg skilaboð, sem voru meðal annars send til ýmissa sáttasemjara og erindreka í samningaviðræðum um vopnahlé, að Sinwar sé fullur sjálfstrausts um að Hamas geti haldið lengur út en Ísrael.

„Við höfum Ísraela nákvæmlega þar sem við viljum þá,“ sagði Sinwar í nýlegum skilaboðum til Hamas-liða.

Vill varanlegt vopnahlé

Sinwar hefur í þó nokkurn tíma ekki gefið undan þrýstingi að samþykkja vopnahléssamning við Ísrael sem myndi einnig fela í sér lausn gísla.

Skilaboðin sýna að ákvörðun hans byggist á því að frekari blóðsúthellingar saklausra Palestínumanna myndu vera í þágu Hamas-samtakanna í stríðinu.

Lokamarkmið Sinwar er að ná varanlegu vopnahléi við Ísrael, en myndi það gera Hamas-samtökunum kleift að lýsa yfir sögulegum sigri yfir Ísrael og ná yfirráðum í Palestínu.

Friðartillaga sem öryggisráð Sameinuðu þjóðanna ályktaði um í gær leggur til sex vikna vopnahlé á milli Hamas-samtakanna og Ísrael.

Benjamín Netanjahú, forsætisráðherra Ísraels, er á móti varanlegu vopnahléi áður en hægt verði að útrýma Hamas.

Sigur væri verri en ósigur fyrir Ísrael

Jafnvel án varanlegs vopnahlés telur Sinwar  Netanjahú eigi fáa aðra kosti en að hernema Gasasvæðið og festast í baráttunni við uppreisnarmenn undir forystu Hamas í marga mánuði eða ár.

„Fyrir Netanjahú væri sigur verri en ósigur," er haft eftir Sinwar.  

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert