Rússnesk herþota rauf sænska lofthelgi

Rússnesk herþota rauf sænska lofthelgi í gær.
Rússnesk herþota rauf sænska lofthelgi í gær. AFP

Rússnesk herþota rauf sænska lofthelgi austur af suðurodda Gotlands síðdegis í gær að sögn sænska hersins.

Tvær þotur á vegum sænska hersins voru sendar í loftið til að beina herþotunni í burtu og segir Tobias Billström, utanríkisráðherra Svíþjóðar, í samtali við sænska ríkisútvarpið að rússneski sendiherrann verði krafinn skýringa á atvikinu.

„Hegðun Rússa er með öllu óviðunandi og mun utanríkisráðuneytið setja sig í samband við rússneska sendiráðið til fá útskýringar á málinu,“ segir utanríkisráðherrann en rússneska herþotan var í stuttan tíma í sænskri lofthelgi.

Skortur á virðingu

Jonas Wikman, herforingi sænska flughersins, segir að verknaður Rússa endurspegli almennt öryggisástand með ótryggara umhverfi og árásargjarnari hegðun Rússa.

Aðgerðir Rússa eru ekki ásættanlegar og sýna skort á virðingu fyrir landhelgi okkar,“ segir Wikman.

Síðast rufu Rússar sænska lofthelgi í mars 2022 en þá flugu tvær rússneskar orrustuþotur yfir Gotlandi.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert