Þakkaði N-Kóreu fyrir stuðninginn

Kim Jong-un og Pútín á samsettri mynd.
Kim Jong-un og Pútín á samsettri mynd. AFP/Sergei Ilyin

Vladimír Pútín Rússlandsforseti hrósaði Norður-Kóreu fyrir að „styðja dyggilega við bakið” á Rússum í stríðinu þeirra í Úkraínu, áður en hann heimsótti höfuðborgina Pyongyang.

Búist er við því að Pútín ætli að styrkja tengsl ríkjanna þegar kemur að varnarmálum en bæði ráða þau yfir kjarnavopnum.

Áætlað er að Pútín lendi í Norður-Kóreu í kvöld og er þetta fyrsta heimsókn hans þangað í 24 ár.

Norður-Kóreumenn í skrúðgöngu árið 2021 þegar þeir fögnuðu því að …
Norður-Kóreumenn í skrúðgöngu árið 2021 þegar þeir fögnuðu því að 73 voru liðin frá stofnun ríkisins. AFP/Kim Won Jin

Rússar og Norður-Kóreumenn hafa verið samherjar allt frá stofnun Norður-Kóreu að lokinni síðari heimsstyrjöldinni. Samband þeirra hefur jafnvel orðið nánara eftir að Rússar réðust inn í Úkraínu árið 2022, sem leiddi til þess að Pútín einangraðist alþjóðlega.

Bandaríkjamenn og samherjar þeirra hafa sakað Norður-Kóreu um að útvega Rússum vopn, þar á meðal langdrægar eldflaugar til að nota í Úkraínu.

Norður-Kóreumenn hafa aftur á móti neitað því að hafa útvegað Rússum vopn en áður en Pútín lagði af stað þangað þakkaði hann ríkisstjórn Kims Jong-un, leiðtoga Norður-Kóreu, fyrir aðstoð í stríðinu.

Kim Jong-un og Pútín takast í hendur í Rússlandi á …
Kim Jong-un og Pútín takast í hendur í Rússlandi á síðasta ári. AFP/Vladimir Smirnov

„Við kunnum mjög svo að meta að Norður-Kórea styður dyggilega sérstakar hernaðaraðgerðir Rússa í Úkraínu,” skrifaði Pútín í grein sem var birt í norðurkóreskum ríkisfjölmiðli.

Hann bætti við að Rússar og Norður-Kórea væru „núna að þróa áfram margþætt samstarf” og að heimsókn hans myndi færa samstarf ríkjanna á „hærra stig”.

Bæði ríkin hafa verið beitt refsiaðgerðum af hálfu Sameinuðu þjóðanna, eða Norður-Kórea frá árinu 2006 vegna þróunar kjarnorku- og langdrægra eldflauga og Rússar vegna stríðsins í Úkraínu.

Pútín hrósaði Norður-Kóreu fyrir að „verja hagsmuni sína á afar árangursríkan hátt þrátt fyrir efnahagslegan þrýsting Bandaríkjanna, ögranir, kúganir og hernaðarlegar hótanir sem hafa varað í áratugi”.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert