Biden æfir sig í flugskýli fyrir kappræðurnar

Talið er að tugir milljóna muni horfa á kappræðurnar eða …
Talið er að tugir milljóna muni horfa á kappræðurnar eða fylgjast með umfjöllun um þær. AFP/Jim Watson/Brendan Smialowski

Í nótt munu Donald Trump fyrrverandi Bandaríkjaforseti og Joe Biden Bandaríkjaforseti mætast í kappræðum á CNN. Trump leiðir í flestum könnunum og því er mögulega meira í húfi fyrir Biden.

Klukkan eitt í nótt að íslenskum tíma hefjast kappræðurnar og munu þær standa yfir í 90 mínútur með tveimur auglýsingahléum. Athygli hefur vakið að slökkt verður á hljóðnemum annars frambjóðandans á meðan hinn er með orðið. 

Hægt verður að horfa á kappræðurnar á vef CNN og Youtube.

Mismunandi áherslur 

Í frétt CNN kemur fram að þetta séu fyrstu sjónvörpuðu forsetakappræðurnar í Bandaríkjunum þar sem sitjandi forseti mætir fyrrum forseta og því má vænta þess að forsetarnir beri saman kjörtímabil sín og telji upp það sem þeir telja að betur hafi farið undir sinni stjórn.

Trump mun líklega reyna að tala um efnahagsmál, ólöglega innflytjendur og glæpi.

Á sama tíma er þess að vænta að Joe Biden tali um aðgengi kvenna að fóstureyðingum, meint dálæti Trumps á erlendum einræðisherrum og skapgerð hans.

Biden varla sést í viku

Undirbúningur mannanna fyrir kappræðurnar er mjög ólíkur og er ljóst að Biden ætlar að vera eins vel undirbúinn og kostur er á.

Hann hefur verið forsetabústaðnum Camp David síðastliðna viku umkringdur 16 ráðgjöfum sem hafa verið að undirbúa hann.

Þá hefur teymið hans sett upp eftirlíkingu af sviðinu, sem frambjóðendurnir mætast á í kvöld, í stóru flugskýli með ljóskösturum. Eru svo tekin rennsli með ráðgjöfum og Biden spurður spurninga sem þeir gera ráð fyrir að hann verði spurður í kvöld.

Er þetta gert til þess að láta hann venjast aðstæðum í sjálfum kappræðunum sem best.

Kappræðurnar verða haldnar í Atlanta í Georgíu-ríki.
Kappræðurnar verða haldnar í Atlanta í Georgíu-ríki. AFP/Getty Images/Kevin Dietsch

Segir Biden verða á örvandi lyfjum

Donald Trump hefur haldið því fram að Joe Biden verði á örvandi lyfjum til að halda sér gangandi. Hefur hann sagt þetta til þess að hafa áhrif á væntingastjórnun áhorfenda, en vafalaust munu margir fylgjast með því hvernig hinn 81 árs gamli Biden mun bera sig.

Daniel Alvarez, talsmaður kosningateymis Trumps, sagði í samtali við The New York Post að Donald Trump væri ekki að stunda einkakappræður með ráðgjöfum eins og hefð er fyrir. 

Þess í stað væri hann að fara yfir ýmis mál sem kosningateymið telur að muni koma upp í kappræðunum.

Þá hefur hann haldið fjölmenna kosningafundi og farið í viðtöl á síðustu dögum sem hann telur að dugi sér.

Trump leiðir í könnunum 

Þess má vænta að tugir milljóna Bandaríkjamanna muni fylgjast með kappræðunum á einn hátt eða annan, samkvæmt könnun sem The Associated Press lét framkvæma fyrir sig. Fjörutíu prósent svarenda sögðust ætla horfa á þær í beinni útsendingu og alls 60% svarenda sögðust ætla að horfa á kappræðurnar, horfa á umfjöllun um þær eða lesa sér til um þær.

Samkvæmt RealClear Polling, sem tekur saman margar kannanir og vigtar, er Trump með 1,5% forskot á Biden á landsvísu. Þegar skoðuð eru þau ríki sem munu hafa hvað mest áhrif á niðurstöðu kosninganna er forskot Trumps hins vegar almennt enn meira en á landsvísu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert