Úrhellisrigningar og þrumuveður hafa valdið usla í Sviss og Norður-Ítalíu undanfarna viku.
Mikið tjón varð í Sviss á föstudaginn fyrir viku síðan þegar úrkoma mældist meira en 100 mm á mörgum svæðum, og féll helmingur þeirrar úrkomu á innan við klukkustund.
Skyndiflóð og aurskriður sópuðu burt bílum og húsum og vitað er til þess að að minnsta kosti einn hafi látist, auk víðtækra skemmda á samgöngumannvirkjum.
Ferðamannastaðurinn Zermatt lokaðist alveg af vegna vatnsflóðs, vegalokana og tafa á lestarþjónustum.
Guardian segir frá.
Óstöðugt ástand var viðvarandi í kringum Alpahéraðið um helgina, áður en það færðist lengra suður til Ítalíu og olli svipuðum úrhellisrigningum í Emilíu-Romagna og norðurhluta Toskana á þriðjudag.
Á bilinu 100-200 mm rigning féll yfir stóran hluta svæðisins. Þar flæddu ár yfir bakka sína með tilheyrandi flóðum.
Þá hefur vatnsborð Gardavatns ekki mælst hærra síðan árið 1977 og mikið þrumuveður í Veneto olli skýstrók nálægt Rovigo sem varð til þess að tré féllu og byggingar urðu fyrir skemmdum.
Hitabylgjur víða um norðurhvel jarðar hafa haldið áfram að ráða ríkjum í veðurfréttum undanfarið. Hitastig í Sádi-Arabíu fór yfir 50 stig nokkrum sinnum í síðustu viku á sama tíma og milljónir manna fóru í hajj-pílagrímsferðina, með þeim afleiðingum að meira en 500.000 manns voru fluttir á sjúkrahús og allt að 1.300 dauðsföll í kjölfarið voru rakin til hitatengdra sjúkdóma.
Nokkur lönd á Balkanskaga urðu fyrir rafmagnsleysi síðastliðinn föstudag þar sem hitastig langt yfir 30°C varð til þess að notkun loftkælinga jókst verulega.
Í Bandaríkjunum hafa meira en 100 milljónir manna fengið hitaviðvaranir undanfarna viku, þar sem dagleg hitamet voru slegin nokkrum norðausturríkjum Bandaríkjanna og í Dauðadalnum í Kaliforníu náði hitinn 49 stigum.
Í Pakistan hefur verið tilkynnt um hundruð dauðsfalla frá því um síðustu helgi, þar sem hitinn fór víða yfir 40 stig hvern dag.