Stórmeistari lést í miðri skák

Stigahæsti stórmeistari Bangladess, Ziaur Rahman, lést í dag fimmtugur að aldri eftir að hafa fengið heilablóðfall og fallið fram á skákborð sitt í miðri skák. 

Framkvæmdastjóri skáksambands Bangladess, Shahab Uddin Shamim, sagði við AFP að Ziaur hefði hnigið niður á meðan á viðureign stóð í 12. umferð á landsmóti gegn stórmeistaranum Enamul Hossain. Ziaur var úrskurðaður látinn á sjúkrahúsi í höfuðborginni Dhaka.

„Leikmenn og starfsmenn í salnum fóru með hann á sjúkrahús fljótlega eftir að hann hneig niður. Þegar þangað var komið sögðu læknarnir að hann væri þegar látinn," sagði Shamim.

Leit ekki út fyrir að vera veikur

Andstæðingur hans Enamul sagði að nokkrar sekúndur hefðu liðið áður en menn áttuðu sig á því að Ziaur hefði fengið heilablóðfall. „Á meðan hann var að tefla leit aldrei út fyrir að hann væri veikur," sagði hann.

„Ég átti leik. Síðan þegar hann fór niður hélt ég að hann væri að teygja sig niður í vatnsflösku," bætti hann við og nefndi að sonur Ziaur hefði verið að tefla á borðinu við hliðina.

Fimm stórmeistarar í skák eru í Bangladess og var Ziaur stigahæstur þeirra og margfaldur landsmeistari.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert