Joe Biden Bandaríkjaforseti er ekki í meðferð við parkinsonssjúkdómnum, að sögn talskonu Hvíta hússins.
Fjölmiðlar vestanhafs greindu frá því í dag að á átta mánaða tímabili hefði sérfræðingur í lækningum við parkinson heimsótt Hvíta húsið að minnsta kosti átta sinnum.
Um er að ræða tímabilið frá júlí í fyrra til og með febrúar í ár.
„Hefur forsetinn verið í meðferð við parkinson? Nei. Er hann í meðferð vegna parkinson? Nei, það er hann ekki. Er hann að taka lyf gegn parkinson? Nei,“ sagði Karine Jean-Pierre, fjölmiðlafulltrúi forsetaembættisins, á blaðamannafundi nú í kvöld að íslenskum tíma.
Til snarpra orðaskipta kom milli blaðamanns og talskonu Bidens á blaðamannafundinum eins og sjá má í myndskeiði hér að neðan.
Sagðist hún ekki myndu staðfesta nöfn á þeim læknum sem hafa hitt Biden. Dagblaðið New York Times fullyrti að læknirinn væri dr. Kevin Cannard, sem hefur unnið með Hvíta húsinu í 12 ár samkvæmt LinkedIn-síðu sinni.
„Það skiptir ekki máli hversu mikið þú þrýstir á mig. Skiptir engu hversu pirraður þú verður út í mig. Ég er ekki að fara að staðfesta neitt nafn,“ sagði Jean-Pierre.
.@PressSec Karine Jean-Pierre to @edokeefe: "It doesn't matter how hard you push me. It doesn't matter how angry you get with me. I'm not going to confirm a name...What I can say share with you is that the president has seen a neurologist for his physical three times." pic.twitter.com/oZQjMiIOPv
— CSPAN (@cspan) July 8, 2024