Landsfundur Repúblikanaflokksins hefst á mánudag í Milwaukee í Wisconsin-ríki og enn er óljóst hver verður varaforsetaefni Donalds Trumps, fyrrverandi Bandaríkjaforseta.
Trump hefur sagt að hann vilji kynna varaforsetaefnið á landsfundinum en Jason Miller, einn helsti ráðgjafi Trumps, sagði á dögunum að varaforsetaefnið yrði kynnt fyrir mánudag.
Talið er að Trump muni bíða með það fram á síðustu stundu svo sviðsljósið fari ekki af sundrung Demókrataflokksins.
Valið er af mörgum talið standa á milli Doug Burgum, ríkisstjóra Norður-Dakota, J.D. Vance, öldungadeildarþingmanns frá Ohio, Tim Scott, öldungardeildarþingmanns frá Suður-Karólínu, og Marco Rubio, öldungadeildarþingmanns frá Flórída.
Búist er við því að milljónir muni fylgjast með landsfundinum í gegnum sjónvarpsstöðvar og aðra miðla, en áætlað er að um 50 þúsund manns verði á fundinum sjálfum.
Fjöldi ræðumanna munu taka til máls á fundinum.
Má þar nefna sem dæmi, að undanskildum Trump og varaforsetaefninu, Ron DeSantis ríkisstjóra Flórída, Dana White forseta UFC, og Donald Trump Jr. son Trumps.
Þá hefur vakið nokkra athygli að Nikki Haley, fyrrverandi mótframbjóðandi Trumps í forvalinu, mun ekki taka til máls á fundinum. Hún hefur þó lýst yfir stuðningi við Trump og hvatt kjörmenn sína til að styðja hann.
Venjuleg fundarstörf verða alla fjóra dagana sem ráðstefnan stendur yfir. Næstum 2.400 kjörmenn verða að samþykkja stefnuna og formlega tilnefna forsetaefni.
Þá er búið að gera þema fyrir alla fjóra dagana.
Á fyrsta degi verður lögð áhersla á efnahagsmál, á öðrum degi verður lögð áhersla á útlendingamál og öryggi, á þriðja degi verður lögð áhersla á þjóðaröryggismál og á lokadeginum verður svo lögð áhersla á slagorð Trumps: „Gerum Bandaríkin frábær aftur.“