Nokkrir stjórnmálamenn og fjölmiðlamenn úr röðum repúblikana kenna demókrötum um skotárásina sem beindist að Donald Trump, fyrrverandi Bandaríkjaforseta, í Butler í Pennsylvaníu í kvöld. Árásin er rannsökuð sem banatilræði.
Skotum var hleypt af á kosningafundi Donalds Trumps í Pennsylvaníu í Bandaríkjunum fyrr í kvöld. Trump er heill á húfi en byssukúla fór í gegn um eyra hans.
Tveir eru sagðir látnir, meintur árásarmaður og einn gestur á fundinum, samkvæmt fréttafluttningi vestanhafs. Aukinheldur eru tveir sagði alvarlega særðir.
Repúblikaninn J.D. Vance, þingmaður frá Ohio sem er líklegt varaforsetaefni Trumps, telur orðræðu Bidens eiga beinan þátt í skotárásinni.
„Meginforsenda Biden-herferðarinnar er sú að Donald Trump sé harðstjóri og fasisti sem verði að stöðva hvað sem það kostar. Þessi orðræða leiddi beint til banatilræðis að Trumps forseta,“ skrifar Vance á X.
Mike Collins, þingmaður repúblikana í Georgíu, kenndi einnig Biden um.
„Joe Biden gaf fyrirmælin,“ skrifar hann á X og deildi tilvitnun í Biden. Í símtali á dögunum sagði Biden: „Ég hef eitt starf og það er að sigra Donald Trump. Ég er alveg viss um að ég er bestur til þess. Við erum því búin að tala um umræðuna, það er kominn tími til að koma Trump í miðju skotskífunnar.“
Steve Scalise, fulltrúadeildarþingmaður repúblikana, sem hefur sjálfur lifað af skotárás, gagnrýndi leiðtoga Demókrataflokksins og skrifaði á X að þeir hefðu aukið „múgæsinginn um að sigur Donalds Trumps í endurkjöri yrði endalok lýðræðis í Bandaríkjunum“.
Steven Miller, ráðgjafi Trumps, tók undir orð Scalise.
Í stærri miðlum lengra til hægri líkjast viðhorfin samsæriskenningum.
Charlie Kirk, stofnandi Turning Point í Bandaríkjunum, heldur því t.d. fram í beinu streymi að „demókratar vildu þetta og eru ósáttir við að það hafi ekki tekist“.
Samsæriskenningasmiðurinn Alex Jones kenndi „djúpríkinu“ um.