Saga banatilræða við Bandaríkjaforseta er löng og blóði drifin, en á laugardag bættist Donald Trump í hóp forseta og fyrrum, sem hafa orðið fyrir ógnum og ofbeldi.
Fjórir Bandaríkjaforsetar hafa fallið fyrir morðingjahendi, þeir Abraham Lincoln, James A. Garfield, William McKinley og John F. Kennedy. Fjórir til viðbótar, þar á meðal Trump, hafa særst í árásum.
Morðið á Abraham Lincoln hinn 14. apríl 1865 er enn í minnum haft. Repúblikaninn Lincoln var drepinn þar sem hann fylgdist með leiksýningu úr stúku Ford-leikhússins í höfuðborginni Washington. Morðinginn var John Wilkes Booth, leikari, sem var Lincoln gramur fyrir að hafa veitt þrælum frelsi og haft sigur á Suðurríkjunum í þrælastríðinu, sem af því spratt. Booth komst undan á flótta, en fannst 12 dögum síðar á bóndabæ og var veginn af hermönnum.
James A. Garfield hafði aðeins verið forseti í fjóra mánuði þegar hann var skotinn í bakið á lestarstöð í Washington DC, hinn 2. júlí 1881. Hann hlaut kvalafull meiðsl af tveimur kúlum, sem hæfðu hann í öxl og bak, en lést ekki fyrr en 11 vikum síðar úr sýkingu. Charles J. Guiteau, morðingi Garfields, var handtekinn á lestarstöðinni og fullyrti að hann hefði skotið forsetann fyrir að hafa synjað sér um sendiherraskipun í Frakklandi. Hann var dæmdur til dauða.
William McKinley forseti var skotinn í magann á kaupstefnu í New York-ríki hinn 6. september 1901 af anarkistanum Leon Czolgosz og lést átta dögum síðar úr drepi. Morðinginn var dæmdur til dauða mánuði síðar. Í kjölfarið var leyniþjónustan (Secret Service), sem fram að því hafði aðallega elst við peningafalsara, fengin til að gæta forsetans allan sólarhringinn og fylgja honum hvert fótmál.
Árið 1912 var Teddy Roosevelt skotinn á kosningafundi í Milwaukee í Wisconsin, en tilræðismaðurinn John Schrank bar að McKinley, hinn fallni forseti, hefði vitrast sér með fyrirmæli um það. Kúlan fór í gegnum gleraugnahús úr stáli og 50 síðna framboðsræðu áður en hún staðnæmdist í brjóstinu. Roosevelt var heljarmenni, kom í veg fyrir að Schrank yrði strengdur upp þar og þá og lauk síðan við að flytja 50 mínútna ræðu sína meðan blóðið seytlaði í skyrtuna áður en hann loks fór á sjúkrahús. Kúluna hafði hann í sér síðan, en Schrank dó á geðsjúkrahúsi 1943.
Sögulegasta banatilræði síðari tíma var þegar John F. Kennedy var skotinn af Lee Harvey Oswald í Dallas í Texas hinn 22. nóvember 1963, í miðju kalda stríðinu. Oswald hæfði hann í höfuð og bak þar sem forsetinn var á ferð í opnum bíl og var hann úrskurðaður látinn hálfri klukkustund síðar. Þótt opinber rannsókn hafi komist að þeirri niðurstöðu að Oswald hafi verið einn að verki, trúir meirihluti Bandaríkjamanna því að víðtækara samsæri hafi legið að baki.
Ronald Reagan, síðasti Bandaríkjaforseti sem særðist í morðtilraun, var skotinn fyrir utan hótel í Washington hinn 30. mars 1981, skömmu eftir að hann tók við embætti. Hann var hætt kominn, þótt hann gerði að gamni sínu við læknana, sem björguðu lífi hans. Tilræðismaðurinn John Hinckley var ekki sakfelldur vegna geðveilu, en vistaður á geðsjúkrahúsi. Hann var látinn laus 2022.
Hópur á snærum Saddams Husseins einræðisherra Íraks, var talinn hafa ráðgert sprengjutilræði við George Bush eldri í janúar 1993.
Að minnsta kosti fimm manns lögðu á ráðin hver í sínu lagi um að koma Bill Clinton fyrir kattarnef, m.a. með því að senda rörsprengju til Hillary eiginkonu hans, og með því að skjóta úr fjarlægð á Hvíta húsið.
Öryggisráðstafanir um George W. Bush voru hertar mikið eftir hryðjuverkaárásirnar á Bandaríkin 2001 og komst enginn tilræðismaður nálægt honum. Í maí 2022 var hins vegar íraskur borgari handtekinn fyrir að safna hóp ISIS-stuðningsmanna til að þess drepa forsetann fyrrverandi.
Allnokkrir höfðu í hótunum við Barack Obama, fyrsta þeldökka forseta Bandaríkjanna, aðallega kynþáttahatarar, en leyniþjónustan kom í veg fyrir flest. Oscar Ramiro Ortega-Hernandez, 21 árs samsæriskenningasinni, var dæmdur í 25 ára fangelsi árið 2011 fyrir að skjóta að Hvíta húsinu með dráp Obama að markmiði.
Í maí 2023 var 19 ára gamall nasisti handtekinn eftir að hafa ekið sendibíl á vegtálma við Hvíta húsið, en hann sagðist vilja drepa forsetann og taka völdin. Hann hefur ekki verið dæmdur en ákæruvaldið krefst 10 ára fangelsisdóms. Í ágúst 2023 var Craig Deleeuw Robertson, 75 ára maður í Provo í Utah, sem hótað hafði að myrða Joe Biden, skotinn til bana af FBI nokkrum klukkustundum áður en forsetinn kom til ríkisins.
Donald Trump hefur orðið fyrir nokkrum tilræðum við líf sitt, en engu svo alvarlegu sem nú. Þar á meðal er atvik í Las Vegas, þegar breskur borgari reyndi að hrifsa byssu af lögregluþjóni til að skjóta Trump með. Hann hlaut árs dóm og degi betur.