Öryggisgæsla í kringum Donald Trump, fyrrverandi Bandaríkjaforseta, var aukin á síðustu vikum vegna gruns um að yfirvöld í Íran hygðust drepa hann.
Frá þessu greinir CNN fréttastofan sem segir að bandarísk yfirvöld hafi fengið upplýsingar frá heimildamanni um áform Írans.
Ekkert bendir þó til þess að byssumaðurinn Thomas Matthew Crooks sé tengdur þessum áætlunum.
Þjóðaröryggisfulltrúi Bandaríkjanna sagði að leyniþjónusta Bandaríkjanna og kosningateymi Trumps hefðu verið gert viðvart fyrir kosningafundinn á laugardag.
Embættismenn leyniþjónustunnar hafi ítrekað varað kosningateymi Trumps við að halda útifundi, þar sem þeim fylgir meiri hætta heldur en fundum þar sem hægt er að stjórna aðgengi að þeim.
Talsmaður fastanefndar Írans hjá Sameinuðu þjóðunum neitar því að írönsk yfirvöld ætli að drepa Trump.
„Þessar ásakanir eru órökstuddar og illgjarnar. Íran sér Trump sem glæpamann sem þarf að sækja til saka fyrir að fyrirskipa morðið á Soleimani hershöfðingja Íran. Íran hefur valið að fara löglega leið til þess að sækja hann til saka.“
Qasem Soleimani, herforingi Íran, var drepinn með loftárás Bandaríkjahers árið 2020 og var sú aðgerð síðar dæmd ólögmæt. Trump fyrirskipaði aðgerðina og hefur Íran ítrekað hótað hefndum fyrir morðið.