„Biden á eftir að sjá alla spilaborgina hrynja“

Áfram fjarar undan stuðningi við Biden í kjölfar kappræðna sem …
Áfram fjarar undan stuðningi við Biden í kjölfar kappræðna sem hann átti við Donald Trump. Samsett mynd/AFP/Tierney L. Cross/Alex Wong/Jim Watson

Staða Joe Biden Bandaríkjaforseta er tekin að þrengjast en fjölmiðlar vestanhafs segja að nokkrir af hæst settu demókrötum landsins séu að biðja Biden um að draga framboð sitt til baka.

Einn demókrati, sem hefur varið Biden opinberlega frá því hann kom fram í kappræðunum, sagði við fréttastofu ABC: „Biden á eftir að sjá alla spilaborgina hrynja innan skamms.“

Meðal þessara demókrata eru sagðir vera Chuck Schumer, leiðtogi öldungadeildar Bandaríkjaþings, Nancy Pelosi, fyrrverandi forseti fulltrúadeildar Bandaríkjaþings, og Hakeem Jeffries, leiðtogi demókrata í fulltrúadeildinni.

Schumer hafi beðið hann um að hætta

Chuck Schumer, leiðtogi öldungadeildar Bandaríkjaþings, fundaði með Biden á heimili hans í Delaware á laugardaginn en fékk litla athygli þar sem aðeins nokkrum klukkutímum seinna var reynt að ráða af dögum Donald Trump, forsetaframbjóðanda repúblikana.

Heimildarmenn fréttastofu ABC segja þó að Schumer hafi á fundinum átt hreinskilið samtal við Biden og hvatt forsetann til þess að draga framboð sitt til baka.

Athygli hefur vakið að talsmaður Schumer neitar ekki þessum fréttum, en segir þó að ef heimildarmaðurinn sé ekki Schumer né Biden þá sé aðeins um getgátur að ræða.

„Schumer upplýsti hann um skoðanir þingflokksins,“ segir í svari frá talsmanni Schumers.

Hakeem Jeffries, leiðtogi demókrata í fulltrúadeild Bandaríkjaþings.
Hakeem Jeffries, leiðtogi demókrata í fulltrúadeild Bandaríkjaþings. AFP/Getty Images/Tierney L. Cross

Jeffries hafi lýst svipuðum skoðunum

Heimildarmaður fréttastofu ABC, sem þekkir til málsins, segir að Hakeem Jeffries hafi lýst svipuðum skoðunum og lagt til að hann myndi draga framboð sitt til baka.

Talsmaður Hakeem Jeffries neitar heldur ekki fréttinni og segir að um einkasamtal hafi verið að ræða. Ekki verði upplýst um innihald þess.

Chuck Schumer, leiðtogi öldungadeildar Bandaríkjaþings.
Chuck Schumer, leiðtogi öldungadeildar Bandaríkjaþings. AFP/Getty Images/Alex Wong

Kannanir sýni að hann geti ekki sigrað

CNN greinir frá því að Nancy pelosi hafi sagt við Joe Biden í einkasamtali nýverið að skoðanakannanir sýni að hann geti ekki sigrað Donald Trump.

Þá gæti framboð hans einnig eyðilagt möguleika demókrata á að vinna meirihluta í fulltrúadeildinni í nóvember.

CNN hefur þetta eftir fjórum heimildarmönnum sem eru kunnugir um samtalið sem þau áttu.

Er Pelosi tjáði honum þetta á Biden að hafa brugðist illa við og samkvæmt einum heimildarmanni hafi hann sagt að hann hefði séð kannanir þar sem hann væri að vinna Trump.

Fór í vörn

Annar heimildarmannanna sagði svo að Biden hafi farið í vörn vegna kannanna, eins og hann hefur gert að undanförnu í viðtölum.

Á einum tímapunkti í símtalinu á Pelosi að hafa beðið Mike Donilon, ráðgjafa Bidens til margra ára, að koma á línuna til að ræða gögnin. Ekki kemur fram hvort að hún hafi beinlínis beðið hann um að draga framboð sitt til baka. 

Á símtalið að hafa átt sér stað á síðustu viku. Talsmaður Pelosi neitar ekki fréttaflutningnum en segir þó að Pelosi hafi ekki rætt við Biden síðan á föstudag.

CNN

ABC News

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert