Panta „barnahermenn“ frá Svíþjóð

Tveir þungavigtarmenn í sænskum undirheimum, Ismail Abdo, öðru nafni „jarðarberið“, …
Tveir þungavigtarmenn í sænskum undirheimum, Ismail Abdo, öðru nafni „jarðarberið“, og Rawa Majid, öðru nafni „kúrdíski refurinn“, en mbl.is hefur fjallað nokkuð um þann síðarnefnda. Dönsk yfirvöld og afbrotafræðingar óttast samstarf danskra og sænskra gengja og þá þróun að barnungir drápsmenn séu pantaðir frá Svíþjóð til að koma liðsmönnum danskra gengja fyrir kattarnef. Ljósmynd/Sænska lögreglan

Dönsk yfirvöld og fræðimenn á sviði félagsvísinda þar í landi eru með böggum hildar yfir því sem þessir aðilar telja mjög óæskilega þróun í afbrotamálum, en þar er um að ræða sókn ungra sænskra afbrotamanna yfir landamærin til að vinna þar ýmis spellvirki.

Þannig liggur sænskur unglingur, sextán ára, nú undir grun um tilraun til manndráps með því að hafa ætlað sér, í samstarfi við 24 ára gamlan mann og þrítuga konu, hverra þjóðerna er ekki getið, að ráða af dögum óþekkt skotmark – sem ekki var á staðnum – við klúbbhús vélhjólaklúbbsins Comanches í Brøndby í apríl.

Var unglingurinn handtekinn með skammbyssu á Kastrup-flugvelli skömmu síðar. Um svipað leyti handtók lögregla fimmtán ára gamlan Svía sem hafði tvö skotvopn í fórum sínum. Að minnsta kosti sá fyrrnefndi naut aðstoðar heimamanna, var sóttur á flugvöllinn og ekið þangað sem honum var ætlað að vinna verkið. Voru báðir piltarnir úrskurðaðir í gæsluvarðhald.

Ofbeldisviljinn mun meiri

Önnur mál snúast um nítján ára gamlan Svía sem handtekinn var með skammbyssu í íbúð á Amager og annan, jafnaldra hins, sem hafnaði í steininum eftir að hafa sprengt handsprengju við skartgripaverslun í Valby.

Óttast lögregla og afbrotafræðingar nú aðgerðir svokallaðra „barnahermanna“ – nokkurs sem tíðkast hefur í sumum róstusömum Afríkuríkjum um áratuga skeið, en var nánast óþekkt á Norðurlöndum þar til sænska klíkan Foxtrot og fjandmenn hennar tóku að beita fyrir sig börnum undir sakhæfisaldri til ofbeldisverka – jafnvel pantaðra drápa.

„Það er óhugnanlegt að sænsk gengi séu farin að stunda það sem fátítt telst: að fara með ófriði á hendur öðrum gengjum yfir landamæri,“ segir David Sausdal, afbrotafræðingur við Háskólann í Lundi í Svíþjóð, í samtali við danska ríkisútvarpið DR og bætir því við að vilji liðsmanna sænskra gengja til beitingar ofbeldis sé mun meiri en gengur og gerist hjá þeim dönsku.

Gætu komið upp Danmerkurdeild

Danska lögreglan segist vita til þess að dönsk og sænsk glæpagengi eigi með sér samstarf sem vissulega sé áhyggjuefni og má til sanns vegar færa þar sem mun meira er um manndráp í væringum sænskra gengja, þau eru 118 síðustu tvö ár.

Sausdal segir það engum vafa undirorpið að sænskt glæpagengi gæti komið sér upp „Danmerkurdeild“ sé það nægilega fjölmennt. Þetta segir hann þó í sjálfu sér ekki mesta áhyggjuefnið, heldur að verið sé að flytja sænsku ofbeldisölduna yfir landamærin til Danmerkur.

Preben Bang Henriksen, þingmaður Venstre á danska þinginu, sagði í samtali við DR á þriðjudaginn að hann hygðist ræða nýlegar handtökur sænskra ungmenna í Danmörku við Peter Hummelgaard dómsmálaráðherra að afloknu sumarfríi.

DR

Sjællandske Nyheder

Berlingske (læst áskriftargrein)

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka